Þetta hófst sem þægileg aukavinna fyrir móður mína en hefur vaxið þannig að við erum sjö í starfi hjá Volare í Eyjum

8.Maí'08 | 06:06

Volare

Í dag fjöllum við um fyrirtækin Volare og Barnaborg en nýverið flutti þessar verslanir í nýtt og stærra húsnæði að Vesturvegi 10. Frá því að búðirnar komust undir eitt þak hafa eigendur náð að auka vöruframboð og þjónustu við bæjarbúa og viðskiptavini. Við sendum þeim nokkrar spurningar til að fræðast um framtíðina og tilurð þess að farið var að stað í upphafi.

Hver er saga fyrirtækisins og af hverju var farið af stað í upphafi?
Volare byrjaði á heimili foreldra minna fyrir tíu árum síðan.  Þetta byrjaði á því að Matthildur systir mín fór að selja þessar vörur í Svíþjóð og fannst tilvalið að koma þeim til Íslands. Hún kom móður minni af stað.  Þetta byrjaði rólega en smá saman jókst salan og umsvifin urðu meiri. Nú er svo komið að við erum með yfir 70 söluráðgjafa víðs vegar um landið.  Þetta hófst sem þægileg aukavinna fyrir móður mína en hefur vaxið þannig að við erum sjö í starfi hjá Volare í Eyjum.  Verslunarreksturinn hófst með því að fyrsta búðin í heiminum sem selur Volare vörurnar opnaði við Vestmannabraut. Þá var bætt við gjafavöru og í fyrra fórum við af stað með leikfanga- og barnafataverslun. Þegar húsnæðið við Vesturveg 10 bauðst okkur til sölu vorum við ekki lengi að ákveða það enda sáum við fram á að geta sameinað okkur á einn stað með tilheyrandi hagræðingu.

Nú rekið þið Volare frá Vestmannaeyjum og eru með sölufulltrúa um allt land, væri ekki auðveldara að reka fyrirtækið frá t.d. höfuðborgarsvæðinu?
Það eru kostir og gallar við staðsetningu fyrirtækisins í Eyjum.  En svo er með alla staði.  Söluráðgjafar okkar um allt land eru ánægðir með hversu hratt vörurnar berast til þeirra.  Við sendum bæði með Flugfélagi Íslands og Íslandspósti.  Flestir okkar söluráðgjafar á höfuðborgarsvæðinu fá sína pakka með flugi á meðan hluti af söluráðgjöfum okkar út á landi fá sent með Íslandspósti.  Þannig fær stór hluti söluráðgjafa sínar vörur afgreiddar samdægurs, þ.e.a.s. ef það er flugfært.  Þeir sem fá sent með Íslandspósti búa á þeim stöðum sem ekki er flogið til og tekur það því miður lengri tíma.
Þegar veðrið er gott er afgreiðslufresturinn hjá okkur mjög góður og þegar þannig liggur við eru söluráðgjafar okkar ánægðir með þjónustuna.  Ég er ekki viss um að fresturinn væri styttri þó við værum á höfuðborgarsvæðinu.  Hins vegar lendum við í vandræðum þegar ófært er í nokkra daga í röð.  Sem betur fer hefur það ekki gerst oft. Við fögnum því fjölgun flugferða til Eyja í sumar enda reynum við að koma pökkum upp eftir jafn óðum.  Bragi og peyjarnir uppi á flugi eru mjög liðlegir og koma pökkunum hratt og örugglega til Reykjavíkur.  Þá eru tveir deildarstjórar starfandi hjá Volare, annar staðsettur í Reykjavík og hinn á Akureyri. Bæði hafa grunnlager hjá sér þannig að hægt er að redda söluráðgjöfum okkar ef mikið liggur við. Eins er ljóst að fjárhagslega hentar það vel að hafa fyrirtækið í Eyjum.  Hér er húsnæði mun ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu.  En meginástæða fyrir staðsetningu fyrirtækisins er einfaldlega að við erum Eyjamenn sem viljum búa í Eyjum.

Hvaða vörur eru það sem að verslanir ykkar selja?
Volare vörurnar er okkar flaggskip enda ljóst að fyrirtækið væri ekki þetta öflugt í dag nema vegna þess að þar erum við að selja hágæðavöru sem góð reynsla er komin á.  Þannig koma sömu aðilarnir aftur og aftur til að kaupa hjá okkur.  Það segir allt sem segja þarf.  Í versluninni okkar við Vesturveg 10 erum við með fjölbreytt úrval.  Við erum með leikföng og þar ættir þú að finna allt það helsta sem í boði er í dag á þeim markaði.  Við erum með reiðhjól og búnað fyrir hjólin. Hjá okkur ætti öll fjölskyldan að geta fundið hjól við sitt hæfi.  Nú þegar bensínverðið er svona hátt ætti fólk að íhuga hjólin. Eyðslan fer eftir hjólreiðamanninum hverju sinni, hversu margar kaloríur þú brennir... :-)  Við erum með fjölbreytt úrval af barnafatnaði.  Þegar við fluttum á nýjan stað tókum við inn barnakerrur, rúm, skiptiborð og fleira fyrir ungabörn. Síðan erum við með fjölbreytt úrval af gjafavöru og þannig höfum við náð að sameina tvær verslanir okkar í eina með fjölbreytt úrval.

Hvar telurðu að ykkar sóknarfæri muni liggja á næstunni?
Sóknarfæri okkar liggja annars vegar í aukningu á sölu Volare varanna um allt land og hins vegar í verslun okkar við Vesturveg 10. Hvernig það mun ganga verður að koma í ljós en við leggjum metnað okkar í að hafa vörurnar okkar á sem bestu verði og ná þannig til okkar viðskiptavina. Til að mynda verslum við Volare vörurnar í Evrum en eins og allir vita hefur gengið breyst mikið á síðustu mánuðum. Reikningarnir frá framleiðandanum hafa hækkað um 30% en við höfum haldið verðinu óbreyttu.  Vonandi náum við að halda því áfram en það veltur á því að efnahagsástandið lagist á næstu mánuðum á landinu og krónan rétti úr kútnum. Metnaður okkar í verslunarrekstri liggur fyrst og fremst í því að bjóða upp á sem fjölbreyttasta úrval á sem bestu verði.  Við erum í samkeppni bæði hér innanbæjar sem og við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Það er okkur sem öðrum hollt og heldur okkur á tánum.

Hvernig er markaðsstarfi Volare háttað í dag?
Við reynum að vera sýnileg hvar og hvenær sem tækifæri gefst.  Það er ljóst að einn af göllunum við það að hafa fyrirtækið í Eyjum er fjarlægðin við stóru fjölmiðlana.  Því miður hefur sú breyting orðið á síðustu ár að flestir fjölmiðlar eru afskaplega Reykjavíkursinnaðir og oft er það þannig að það er eins og ekkert gerist á landinu fyrir utan stór höfuðborgarsvæðið.  Því er erfitt fyrir okkur að koma fyrirtækinu á framfæri. Á móti hafa fjölmiðlar hér í Eyjum staðið sig afskaplega vel og vega kannski upp á móti.  Við tókum til að mynda þátt í sýningunni „heilsa, húð og hár" í Smáralindinni um síðustu helgi, verðum á Suðurlandssýningunni á Selfossi í júní og reynum að vera með söluráðgjafa okkar á staðnum á öllum helstu hátíðum víðs vegar um landið í sumar. Eins er unnið að því að  auglýsa í blöðum.  Allt kostar þetta pening og við líkt og önnur fyrirtæki verðum að sníða okkur stakk eftir vexti í þeim efnum.

Nýverið opnuðuð þið í nýju og endurbættu húsnæði þar sem Reynisstaður var áður, var mikil þörf fyrir ykkur að komast í þessa stækkun á verslunarplássi?
Já, vissulega. Við vorum fyrir löngu búin að sprengja af okkur húsnæðið við Vestmannabraut þar sem Volare var áður. Eins rákum við Barnaborg í leiguhúsnæði við Heiðarveg og höfðum lagerhúsnæði fyrir Volare vörurnar niður á bryggju. Að koma þessu á einn stað er mikil hagræðing fyrir okkur, sama á hvað þú horfir.  Fjárhagslega náum við hagræðingu með betri nýtingu á starfsmönnum okkar og vinnuaðstaðan er öll hin besta. Eins fannst okkur spennandi að komast á þennan stað enda er þetta að mínu mati eitt besta verslunarhúsnæði í Eyjum. 

Hvernig hafa viðtökur eyjamanna og viðskiptavina ykkar verið eftir að þið opnuðuð?
Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Við höfum fengið mikið af hamingjuóskum og fólk er hrifið af versluninni.  Fyrir það erum við þakklát.  Þegar við fórum af stað var ákveðið að leggja metnað okkar í að hafa verslunina bjarta og skemmtilega. Það kostaði sitt en vonandi mun það borga sig til lengri tíma litið.

Eitthvað að lokum?
Við viljum koma á framfæri þakklæti til Eyjamanna fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið.  Að reka fyrirtæki í Eyjum getur oft verið erfitt, sérstaklega þegar litið er til flutningskostnaðar en það er vel hægt og við erum bjartsýn á framtíðina hér í Eyjum. Við leggjum metnað okkar í að halda sömu verðum og erum í sumum tilvikum lægri en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu í vörum okkar. Auðvitað er það ekki algilt frekar en annað en í dag á slagorðið verslum í heimabyggð ekki lengur við, heldur verslum þar sem það er hagkvæmast.  Það er nefnilega oftast í okkar heimabyggð.

Heimasíða Volare er www.Volare.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.