Stöndum saman- fjölskylduhelgin um hvítasunnuna

7.Maí'08 | 13:05

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Ágætu bæjarbúar!

Um næstkomandi helgi, hvítasunnuhelgina, verður Fjölskylduhelgin haldin hátíðleg í 4. skipti. Það er árleg tilhlökkun hjá starfsmönnum Fjölskyldu- og fræðslusviðs að undirbúa hátíðahöldin enda skemmtileg og öðruvísi vinna með ótal sjálfboðaliðum, stofnunum og félagasamtökum.

Fjölskylduhelgin er búin að festa sig í sessi sem ómissandi árlegur viðburður í bæjarlífinu þar sem boðið er upp á ýmis konar heilbrigða, skemmtilega og gjaldfrjálsa afþreyingu og höfðað til fjölskyldunnar að koma og skemmta sér saman. Eins og áður tengjum við Fjölskylduhelgina við listviðburðinn List án landamæra þar sem við njótum listsköpunar fatlaðra og verður sú sýning opnuð í Íþróttamiðstöðinni við setningu hátíðarinnar.

Á það skal minnt að "fjölskylda" þarf ekki bara að vera hefðbundin kjarnafjölskylda með pabba, mömmu, börnum og bíl heldur erum við að tala um hvers kyns fjölskyldugerð. Það gæti t.d. verið einhleypa frænkan sem fær jafnvel systkinabörnin sín "lánuð", afi og amma ein sér eða með barnabörnin og hin ýmsu kærustupör af öllum stærðum og gerðum. Í stuttu máli sagt, allir bæjarbúar. Að þessu sinni reyndum við að huga að því að gera unglingunum meira til hæfis og var í því skyni leitað eftir hugmyndum úr unglingadeild Grunnskóla Vestmannaeyja. Þaðan komu margar góðar hugmyndir en ákveðið var að taka upp þá sem nefnd var oftast, þ.e. að grilla með fjölskyldunni. Fjölskylduhelginni lýkur því að þessu sinni með alls herjar grillveislu og samsöng á Stakkó þar sem allir koma saman og gera það sem Eyjamenn kunna best, að syngja saman í einum kór.

Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er Stöndum saman. Það er hlutverk fjölskyldna að standa saman í lífsbaráttunni og þeim verkefnum sem að höndum ber í gegnum æviferilinn. Ef fjölskyldan stendur ekki saman í gegnum þykkt og þunnt, gegnum gleði og áföll, sundrast hún óhjákvæmilega. Þar liggur ábyrgðin sannarlega á þeim fullorðnu sem setja stefnuna og taka ákvarðanir fyrir þá sem yngri eru. Þó að sjálfsögðu beri okkur að hlusta á raddir barnanna og leita eftir áliti þeirra miðað við aldur þeirra og þroska er það okkar uppalandanna að taka miserfiðar og misvinsælar ákvarðanir fjölskyldunni til heilla. Börnin okkar eru kannski ekki alltaf ánægð með kúrsinn sem tekinn er en þegar mörkin eru skýr og skilaboðin hreinskilin og sanngjörn fylgja börnin stefnunni sem við tökum.

Sem bæjarfélag verðum við líka að taka saman kúrsinn. Við getum ekki öll ráðið ferðinni á þeirri vegferð sem liggur fyrir höndum. Rétt eins og börnin er það kannski hlutverk okkar almennu bæjarbúa að kvarta pínulítið og kveina, suða aðeins, setja okkur upp á móti og skammast út í "forráðamenn" okkar. En þegar upp er staðið veltur framtíð samfélagsins á samstöðu um þær ákvarðanir sem teknar eru. Líka um ákvarðanir sem falla ekki öllum í geð.

Ég óska öllum bæjarbúum innilega til hamingju með fjölskylduhelgina okkar og hvet alla til að kynna sér dagskrána og taka þátt í viðburðum helgarinnar.

Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi Fjölskyldu- og fræðslusviðs.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is