Það er greinilegt á öllu að Eyjamenn kunna að meta menningarviðburði sem þennan

1.Maí'08 | 06:57
Fyrir um tveimur vikum stóð Skapti Örn Ólafsson í félagi við Ólaf Stolzenwald fyrir tónleikum og myndlistasýningu til minningar um Guðna Hermansen. Skapti hefur áður skipulagt tónleika í eyjum og mun sjálfsagt halda áfram á þeirri braut á næstunni. Umgjörð myndlistasýningarinnar og tónleika til heiðurs Guðna voru skipuleggjendum til fyrirmyndar.
Eyjar.net sendu Skapta nokkrar spurningar og birtum við svörin hér að neðan

Hvað varð til þess að þú fórst af stað með myndlistarsýningu og jazztónleika til minningar um Guðna Hermansen?
Ég og félagi minn, jazzgeggjarinn, prentsmiðjustjórinn og kylfingurinn, Ólafur Stolzenwald höfðum rætt það í langan tíma að setja upp tónleika til heiðurs myndlistar- og tónlistarmanninum Guðna Hermansen. Þegar þessi hugmynd bar á góma í spjalli hjá okkur í vetur rann upp fyrir okkur að Guðni hefði orðið áttræður 28. mars sl. Því settum við stefnuna á að minnast Guðna með myndarlegum hætti á vordögum. Úr varð að blásið var til yfirlitssýningar á verkum Guðna Hermansen ásamt jazztónleikum 18. apríl sl. Þá settum við upp heimasíðu, á slóðinni www.heimaslod.is/gudnihermansen, og gáfum út bækling um meistarann Guðna Hermansen.

Okkur finnst líka mikilvægt að minningu listamannsins Guðna sé haldið á lofti þannig að komandi kynslóðir fái vitað hvílíkur snillingur hann var sem myndlistar- og tónlistarmaður. Það er af nægum snillingum að taka úr Eyjum sem mikilvægt er að minningu þeirra sé haldið á lofti. Af fjölmörgum er að taka, en hægt er að nefna menn eins og Oddgeir Kristjánsson og Ása í Bæ, myndlistarmennina Júlíönu Sveinsdóttur, Engilbert Gíslason og Sverri Haraldsson, íþróttamanninn Torfa Bryngeirsson eða frumkvöðla eins og Einar "ríka" Sigurðsson og Helga Benediktsson. Vestmannaeyjar hafa alið af sér margan meistarann.
 
Svona dagskrá er ekki sett upp á einum degi, hvernig var ferlið í kringum þetta hjá þér?
Ég hef áður sett upp tónleika í Vestmannaeyjum og víðar um landið en umfangið í kringum þetta verkefni var töluvert stærra í sniðum. Segja má að við Ólafur höfum verið á fullu síðan um áramót að spá, spekúlera og skipuleggja verkefnið sem náði síðan hámarki með mögnuðum jazztónleikum í Akóges og opnun myndlistarsýningar 18. apríl sl. Ásamt okkur Ólafi kom fjölskylda Guðna Hermansen að verkefninu sem var alveg ómetanlegt. En það er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið frábærar og verkefnið bæði skemmtilegt og gefandi.
 
Þetta eru ekki fyrstu tónleikarnir sem að þú skipuleggur í Eyjum, ertu byrjaður að skipuleggja næstu tónleika?
Frá árinu 1998 hef ég reglulega staðið fyrir jazztónleikum í Eyjum. Ég byrjaði að hlusta á jazz á unga aldri og jazzhátíðin Dagar lita og tóna ýttu undir áhuga á jazztónlist til muna. Í dag má segja að ég sé forfallinn jazzgeggjari. Síðan þegar verkefni sem þetta gengur eins og raun bar vitni er ekki annað hægt en að líta á það sem hvatningu til frekari dáða. Þannig að það má segja að ég sé hvergi nærri hættur að standa fyrir jazztónleikum í Eyjum og aldrei að vita nema ég standi fyrir tónleikum í sumar eða í haust. En það verður að koma í ljós með hækkandi sól.
 
Nú kostar sitt að koma svona verkefnið á koppinn, voru einhver fyrirtæki sem aðstoðuðu við framtakið?
Það kostar töluvert að koma svona verkefni upp, en við nutum aðstoðar frá fjölmörgum einstaklingum og fyrirtækjum í Eyjum og á fastalandinu. Fyrst ber að nefna Menningarráð Suðurlands sem styrkti verkefni myndarlega og Vestmannaeyjabæ sem lagði sitt af mörkum þannig að verkefnið varð að veruleika. Þá keyptu fjölmörg fyrirtæki í Eyjum af okkur miða á tónleikana, prentsmiðjan GuðjónÓ kom myndarlega að verkefninu, meistarakokkurinn Grímur Gíslason lagði hönd á plóg, Guðjón Hjörleifsson hjá Heimaey - þjónustuveri lagði okkur lið, félagarnir Róbert Sigurmundsson og Bragi Ólafsson hjá RB-íbúðargistingu gistu tónlistarmennina og myndlistarmaðurinn Guðjón Ólafsson frá Gíslholti var sýningarstjóri. Þá lánuðu fjölmargir einstaklingar verk eftir Guðna á sýninguna og á heimasíðuna okkar. Síðast en ekki síst viljum við þakka félögum okkar í Akóges fyrir stuðninginn, en tónleikarnir og sýningin fóru fram í salnum hjá þeim. Við erum gríðarlega þakklátir fyrir allan þann stuðning sem við fundum fyrir í tengslum við verkefnið.

Eitthvað að lokum?
Ég vil hvetja lesendur http://www.eyjar.net/ til að líta við á heimasíðuna til heiðurs Guðna Hermansen - www.heimaslod.is/gudnihermansen Þar er hægt að lesa um myndlistar- og tónlistarmanninn Guðna og sjá fjölmargar ljósmyndir af honum í leik og starfi. Með tíð og tíma bætast síðan við fleiri ljósmyndir.

Þá viljum við þakka frábærar viðtökur, en mæting á tónleika og myndlistarsýningu var gríðarlega góð. Það er greinilegt á öllu að Eyjamenn kunna að meta menningarviðburði sem þennan og þegar viðtökurnar eru eins og raun bar vitni hvetur það mann til frekari dáða.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.