Með tilkomu ferjulægis í Bakkafjöru mun siglingin taka um 30 mínútur og aksturinn til Reykjavíkur um einn og hálfan tíma

15.Apríl'08 | 05:45

Bakkaferja Samgöngur

Enn og aftur ríða á vaðið andstæðingar samgöngubóta í formi Landeyjahafnar með sömu rökin og endalaust er búið að hrekja í ræðu og riti.  Ég hef fylgst með undirskriftasöfnun hóps sem er á móti þessari samgöngubót sem vill fá sem flesta til að skrifa nafn sitt á þennan lista. 

 Á síðu þessa hóps má lesa að hugmynd um höfn í Bakkafjöru sé talin fráleit og algerlega óraunhæf af þeim sem þekkja til á svæðinu.  Þar segir að líkur séu til að enn fleiri ferðir falli niður milli lands og Eyja en raunin er í dag og að auki muni gerð þessarar hafnar ekki stytta leiðina í höfuðstaðinn að neinu ráði.

Ekki ætla ég að gera lítið úr skoðunum fólks sem til þekkir á þessu svæði, en rökin sem efasemdarmenn um samgöngubætur í formi Landeyjahafnar nota eru bara ekki rök sem ég sætti mig við.  Að nefna að árabátar hér á árum áður hafi átt í erfiðleikum með lendingu tel ég ekki haldbær rök til að mótmæla gerð ferjulægis, að draga enn og aftur fram myndband sem sýnir Lóðsinn uppi í Landeyjarsandi fá á sig skvettu eru rök sem löngu er búið að svara og hefur verið sýnt fram á að stærðarmunur þeirrar ferju er sigla muni í Landeyjahöfn og Lóðsins er slíkur að það sem lítur út sem háskalegt brot í myndbandinu er ekki annað en skvetta á kinnung ferjunnar og hefur engin áhrif á örugga siglingu farsins.

Að segja að fleiri ferðir kunni að falla niður með tilkomu ferjulægis í Bakkafjöru er kannski leikur að tölum.  Þar sem mun fleiri ferðir verða á hverjum degi milli lands og Eyja munu að öllum líkindum fleiri ferðir falla niður en raunin er í dag.  Það gefur auga leið að ef einn dagur fellur niður þar sem mögulega hefðu verið farnar 6 - 8 ferðir þá safnast fljótt upp ferðir sem niður falla miðað við þær 2 ferðir sem falla niður á heilum degi í dag. 

Þá má benda á að úrtölumenn bættra samgangna með gerð ferjulægis í Bakkafjöru vilja fá stærri og hraðskreiðari Herjólf.  Á það hefur verið bent að stærð skipsins sem við höfum í dag veldur því að erfitt er að fara inn í Þorlákshöfn í slæmu veðri og stærra skip komi til með að valda meiri frátöfum.  Sömu menn benda á að auðveldlega mætti stækka höfnina í Þorlákshöfn en tala um það í næsta orði að hættulegt geti verið að byggja höfn í Bakkafjöru þar sem fljótlega yrði þar byggð stórskipahöfn sem tæki frá okkur öll viðskipti, ég sé ekki að auknar framkvæmdir í Þorlákshöfn myndu gera annað en taka frá okkur viðskipti ef þeim sömu rökum yrði beitt, en þau henta líklega ekki málstaðnum í því tilviki.

Alveg hárrétt er eins og fram kemur að höfn í Bakkafjöru muni ekki á nokkurn hátt stytta leiðina í höfuðstaðinn okkar Íslendinga.  Líklega mun leiðin verða örlítið lengri í kílómetrum talið þó ekki muni þar miklu.  En hitt er annað mál að sá tími sem tekur að komast í höfuðstaðinn mun styttast þó nokkuð með tilkomu ferjulægis í Bakkafjöru.  Í dag tekur það tæpa þrjá tíma að sigla með skipinu til Þorlákshafnar á góðum degi og við tekur 40 mínútna akstur á þröngum vegi um þrengslin. 

Með tilkomu ferjulægis í Bakkafjöru mun siglingin taka um 30 mínútur og aksturinn til Reykjavíkur um einn og hálfan tíma.  Þetta lætur nærri að vera helmingur þess tíma sem ferðalagið tekur í dag og um talsvert breiðari og betri veg að fara svo ég tali nú ekki um  með tilkomu nýs Suðurlandsvegar sem í bígerð er.

Þó svo ég hafi hér enn og aftur bent á að tíminn sem tekur okkur að komast í höfuðstaðinn muni styttast með tilkomu ferjulægis í Bakkafjöru þá tel ég það ekki stærsta kostinn við tilkomu ferjulægisins.  Það er ferðatíðnin sem mér og fleirum finnst skipta mestu máli.  Með tilkomu nýs Herjólfs verður ferðatíðnin ekki meiri en nú er.  Í dag kemst Herjólfur þrjár ferðir á milli lands og Eyja á sólarhring og er þá allur sólarhringurinn undir.  Með tilkomu nýs Herjólfs væri kannski möguleiki á að fara fjórar ferðir þegar allra best lætur.  Herjólfur fer tvær ferðir í dag milli lands og Eyja eins og flestum er líklega kunnugt um og tekur það tímann frá kl. 08:00 til 22:30 að öllu jöfnu. Á þessum sama tíma væri möguleiki að fara 7 - 8 ferðir á ferju sem færi í Landeyjahöfn.  Það er sú bylting sem ég vill sjá í samgöngum milli lands og Eyja. Að berjast fyrir lengri siglingarleið finnst mér vera fornaldarhugsunarháttur og lítt til þess fallið að efla samgöngur til framtíðar í okkar plássi.


Hvað varðar undirskriftarsöfnunina sem slíka þá er ég algerlega sáttur við að fólk fái að tjá sína skoðun á málunum og skora á fólk að gera það, eins og ég hef valið að gera hér, en mér finnst ekki við hæfi að safna undirskriftum og nota til þess rök sem lítill eða enginn fótur er fyrir.  Þá set ég stórt spurningarmerki við þær aðferðir að ómálga og jafnvel nýfædd börn skuli vera skráð á undirskriftarlista sem þennan.

Þá hefur vakið athygli mína að nokkuð mikið er um að börn á grunnskólaaldri hafa myndað sér skoðun á því hvort rísa eigi höfn í Bakkafjöru eða ekki. Ég hef ágætt aðgengi að þessum börnum og hef forvitni minnar vegna hlerað skoðanir þeirra á þessum málum.  Þar finnst mér með ólíkindum hvernig þau virðast vera fyllt af ranghugmyndum til þess eins að lokka þau til undirskriftar.  Rök eins og að þarna verði engin rúta til að ferja þau frá Bakka, þarna verði engin þjónusta og ekki standi til að byggja einhverja turna fyrir fólkið að staldra við, þarna muni bílarnir eyðileggjast vegna sandfoks, að búið sé að reyna í 100 ár að græða upp þennan sand án árangurs og svo að þessi listi sé fyrir þá sem vilja fá göng milli lands og Eyja.  Rök sem þessi eru vel til þess fallin til að tæla ungt fólk til undirskriftar en mér finnst þarna afskaplega lágt lagst til að næla í kennitölur þessara barna.

Þá má bæta við nokkrum staðhæfingum sem ég hef heyrt fleygt undanfarið:  Þarna verður engin rúta, sumir segja þó það verði rúta en það mun kosta 5000 kr. með henni, það tekur tvær klukkustundir að aka frá Bakka til Reykjavíkur, siglingin tekur 2 og ½ tíma milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og aksturinn hálftíma, það verða engar kojur í Bakkafjöruferju, nýr Herjólfur getur siglt milli lands og Eyja á innan við 2 klst, ölduhæð við Bakkafjöru getur verið milli 8 og 20 metrar, allir bílar munu eyðileggjast vegna sandfoks í Bakkafjöru,  Landeyjahöfn mun fyllast af sandi og þá fáum við engar samgöngur, ef við gerum ekki höfn í Bakkafjöru getum við notað peninginn í stórskipahöfn í Vestmannaeyjum,  ef þú vilt göng þá áttu að skrifa undir listann ströndum ekki. 
Allt eru þetta tilhæfulausar staðhæfingar sem eingöngu eru settar fram til að fá fólk upp á móti einu mesta framfaraspori í sögu samgangna milli lands og Eyja, hver tilgangurinn er veit ég ekki.

Ég hvet Eyjamenn sem og aðra Íslendinga að láta ekki slá ryki í augu sér.  Einnig hvet ég fólk til að fylgjast með hvort nafn þeirra er skráð á þennan lista, ég veit um fleiri en eitt tilfelli þar sem viðkomandi hefur ekki haft hugmynd um að hafa verið skráður.
Að velja á milli áframhaldandi siglinga í Þorlákshöfn og siglingu í Landeyjahöfn er val um stöðnun eða framfarir.  Ég og margir aðrir erum fylgjandi framförum og vona ég að afturhalds og íhaldssemi fái ekki stöðvað það mikla framfaraskref í samgöngum sem ferjulægi í Bakkafjöru kemur til með að verða. 

Jarl Sigurgeirsson.

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.