Guðni Hermansen, djassinn og Eyjarnar

11.Apríl'08 | 05:41

Guðni

ÞEGAR ég flutti til Vestmannaeyja í árslok 1960, forfallinn sautján ára djassgeggjari, undraðist ég mjög að þarna í fámenninu skyldi vera iðandi djasslíf og nokkrir frábærir spilarar.

Þar skal fremstan telja Guðna Hermansen tenórsaxófónleikara, sem var húsamálari að atvinnu og listmálari og tónlistarmaður í hjáverkum. Hann var saxófónleikari af Hawkinsskólanum og vildi telja fjóra í taktinn og fylgja hljómagangi laganna. Þarna voru fínir trommarar, Sigurðar tveir, sá eldri Guðmundsson og kenndur við Háeyri, sá yngri Þórarinsson. Fleiri mætir spilarar voru í Eyjum á þessum árum, en þeir sem ég hafði mest samneyti við voru mér lítt eldri og kunnu að meta Ornette Coleman skífurnar sem ég kom með til Eyja, en voru fullnútímalegar fyrir flesta - og var þá sama hvort var í Eyjum eða Reykjavík. Þetta voru Gylfi Gunnarsson prentari, trompet- og saxófónleikari sem bjó yfir miklum hæfileikum en fluttist ungur úr landi og hætti hljóðfæraleik - og Aðalsteinn Brynjólfsson í Brynjólfsbúð, bassaleikari, sem seinna varð einn af fremstu djassbassaleikurum landsins, lék m.a. með Guðmundi Ingólfssyni, en hvarf úr landi einsog Gylfi. Guðjón Pálsson píanisti var þá fluttur til Reykjavíkur.

Uppgang djassins í Eyjum má rekja til tvenns; hins iðandi mannlífs á vertíðum þegar ball var á nær hverju kvöldi í landlegum, og heimkomu trompetleikarans Haraldar Guðmundssonar árið 1949; en átta ára flutti hann úr Eyjunum til Reykjavíkur og þar varð hann fyrsti trompetleikari hljómsveitar Björns R. Einarssonar 1946. Í Eyjum stofnaði Haraldur H.G. sextettinn og Guðni Hermansen helsti einleikari ásamt hljómsveitarstjóranum. Haraldur lést árið 1981 en var þá fyrir löngu fluttur til Neskaupstaðar. Um komu Haraldar til Eyja skrifaði Einar Bragi skáld, er þá var ritstjóri Eyjablaðsins: „Til skamms tíma virtist samkomuhúsið vera á sífelldum hrakhólum með hljóðfæraleikara, en nú (innskot: eftir að H.G kom) er eins og þeir spretti upp úr jörðinni við hvert fótmál, og hinum eldri færist nýtt fjör í æðar."

Er Haraldur og félagar í H.G. sextettnum hættu að leika í Samkomuhúsinu tóku þeir Alþýðuhúsið á leigu og stóðu þar fyrir dansleikjum í samkeppni við Samkomuhúsið. Píanisti HG-sextettsins, Jón Steingrímsson, fórst kornungur með Glitfaxa í febrúar 1951. Þá var leitað til Reykjavíkur eftir píanista og kom Árni Elfar úr Bjössabandinu og með honum Axel Kristjánsson, bassa og gítarleikari. Samkomuhúsmenn réðu þá reykvískar hljómsveitir til að leika og voru Svavar Gests og Guðmundur Norðdahl meðal hljómsveitastjóra. Ólafur Gaukur og Viðar Alfreðsson voru um tíma í Eyjum og fleiri og fleiri. Þetta allt hafði þau áhrif að Vestmannaeyjar urðu útvörður Íslandsdjassins í suðri. Meðan Rondó-sextettinn starfaði, 1960-64, var djassinn enn firnasterkur í Eyjum með Guðna Hermansen í broddi fylkingar. Sem gamall hawkinisti átti hann ekki í neinum vandræðum með rokkið, en er bítlatíminn reið í garð var blásturshljóðfærunum útrýmt um tíma. Guðni sneri sér þá algjörlega að málaralistinni, en sem betur fór tók hann að blása aftur síðustu árin sem hann lifði, en er hann féll frá má segja að djasslífið í Eyjum hafi liðið undir lok. Þó halda Eyjamenn úti myndarlegri djasshátíð um hvítasunnu og hinn 18. apríl verður þess minnst að Guðni hefði orðið áttræður í ár, en hann féll frá langt fyrir aldur fram 1989. Yfirlitsýning verður á verkum hans og mikill konsert þar sem Ólafur Stolzenwald bassaleikari, sem á rætur í Eyjum, mun fara fyrir fríðum flokki hljómlistarmanna.

Vernharður Linnet

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Bók Bjarna í Bónus

2.Desember'19

Nú er hægt að kaupa bók Bjarna Jónassonar „Að duga eða drepast” í Bónus, Vestmannaeyjum. Að duga eða drepast lýsir lífshlaupi Bjarna Jónassonar, flugmanns og útvarpsstjóra í Vestmannaeyjum.