Höfnum Bakkafjöruhöfn

6.Apríl'08 | 06:06

höfn vestmannaeyjahöfn vestmannaeyjar vestmannaeyjabær

Undirritaður er einn af fjölmörgum efasemdamönnum um ágæti þess að treysta á samgöngur við Vestmannaeyjar um Bakkafjöru. Ekki er meiningin að gera lítið úr því að mögulegt er að byggja þar höfn sem gæti verið nothæf yfir hluta ársins, en með miklum frátöfum á öðrum tímum.

Ekki ætla ég heldur að gera lítið úr vinnu þeirra „reiknistokksmanna" er unnið hafa að hugsanlegri framkvæmd í Bakkafjöru, en tel þó að gott væri að hlusta vel á rök efasemdamanna þegar horft er til hagsmuna og framtíðar Vestmannaeyja. Það er ekki óeðlilegt að mörgum finnist hugmyndin um Bakkafjöruhöfn spennandi kostur en einhvern veginn finnst mér að þar fari fremst fólk sem ekki þarf að ferðast nema þegar blíðast er og best og ræður sinni ferðaáætlun sjálft.

Ekki hefur náðst meirihluti eða vilji í bæjarstjórn Vestmannaeyja til að gefa bæjarbúum tækifæri á að tjá hug sinn í kosningum varðandi möguleika í samgöngumálum hér, þrátt fyrir undirskriftasöfnun þar að lútandi. Það er ekki of seint að endurskoða þá ákvörðun.

Framtíð byggðar í Vestmannaeyjum byggist á góðum samgöngum. Það er krafa nútímans og framtíðarinnar, ekki einungis milli lands og Eyja heldur á öllu landinu. Þeim fjármunum sem veita á í Bakkafjöruhöfn og smíði smáferju til siglinga milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja væri mun betur varið til hafnargerðar norðan Eiðis og smíði eða kaupa á alvöru skipi til siglinga milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Einnig mætti styrkja hafnaraðastöðu í Þorlákshöfn t.d. með sjóvarnargarði við Hafnarnes. Það gerði alla aðkomu að Þorlákshöfn mun öruggari og kæmi öllum til góða. Skip (ca 100 m langt) sem sigla á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja þarf að sigla á tæpum tveimur klukkustundum (miðað við eðlilegar aðstæður). Það segir okkur að með góðu móti er hægt að sigla þrjár til fjórar ferðir á dag. Við skulum hafa það hugfast að um 90% farþega og flutnings að og frá Eyjum eru til höfuðborgarsvæðisins. Einnig mun Suðurstrandarvegur opna möguleika til aukins útflutnings sjávarafurða frá Eyjum með flugi um Keflavík.

Allir þeir sem starfa við sjó eða starfsemi er tengist hafnarsvæðinu hér í Eyjum sjá að höfnin er einfaldlega of lítil og þröng. Skipum hefur ekki fjölgað en stærð þeirra er önnur í dag en áður var. Því þarf að horfa fram á við og tryggja að Vestmannaeyjahöfn sé nútímaleg. Skipafélögin vantar stærra svæði fyrir sína starfsemi s.s. gámavelli. Við skulum einnig athuga að Vestmannaeyjahöfn er síðasta viðkomuhöfn á Íslandi vegna siglinga flutningaskipa til Evrópuhafna bæði hjá Eimskipum og Samskipum. Það er staða sem við verðum að standa vörð um og því er nauðsyn að horfa á þróun hafnarmála í Vestmannaeyjum og samgöngur við land í samhengi. Nánast öll starfsemi sem hér er krefst góðrar hafnaraðstöðu. Möguleikar Vestmannaeyja felast í nýrri og rúmgóðri höfn er gæti tekið á móti verulega stórum skipum. Sá möguleiki er norðan við Eiði.
Undirritaður er orðinn það fullorðinn að hann man eftir því þegar Eyjamenn voru að berjast fyrir bættum samgöngum um daglegar ferðir milli lands og Eyja. Það er ekki sú staða sem ég vil sjá ungt fólk þurfa að fara að berjast fyrir á nýjan leik.

Höfundur er hafnarvörður í Vestmannaeyjum.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.