Heimamenn sjá fyrir sér uppbyggingu og aukin verkefni tengd ferðaþjónustu og möguleikann á því að geta á ný stundað siglingar frá Landeyjasandi.

20.Mars'08 | 07:54

Unnur brá

Síðustu daga hefur mikil umræða átt sér stað varðandi væntanlegt eignarhald á Bakkafjöruhöfn og hafa bæði bæjarstjórn og bæjarráð ályktað um málið. Við sendum nokkrar spurningar á Unni Brá sveitastjóra í Rangárþingi eystra til þess að fá þeirra hlið á málinu.

Hvað varð til þess að ekki náðust samningar milli Vestmannaeyjabæjar og ykkur í Rangárþingi eystra um eignarhald á Bakkafjöru og þeirri höfn sem þar á að rísa?
Sveitarfélagið Rangárþing eystra hefur langa reynslu af samstarfsverkefnum af ýmsum toga við önnur sveitarfélög. Áður en stofnað er til slíkra verkefna er ljóst að aðilar verða að vera sammála um hvert skuli stefnt með verkefnið og að  markmið aðila með samstarfinu séu þau sömu. Ljóst er að væntingar heimamanna hér í Rangárþingi til hafnarinnar og þeirra framtíðartækifæra sem henni fylgja eru og hafa verið miklar. Heimamenn sjá fyrir sér uppbyggingu og aukin verkefni tengd ferðaþjónustu og möguleikann á því að geta á ný stundað siglingar frá Landeyjasandi.

Okkar meining var sú að höfnin yrði rekin þannig að þeim tækifærum sem rækju á fjörur hafnarstjórnar yrði veitt brautargengi ef viðskiptahugmyndin væri góð. Rangæingar hafa á við undirbúning málsins fengið þá kynningu á verkefninu að hægt verði að koma upp aðstöðu fyrir skemmti- og smábáta í höfninni, enda koma þær væntingar fram í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst um samfélagsleg áhrif hafnarinnar. 
 
Samkvæmt ályktun sveitastjórnar ykkar segir m.a. að samningar hafi ekki tekist við Vestmannaeyjabæ um rekstur hafnarinnar vegna ólíkra sjónarmiða um framtíðaruppbyggingu á svæðinu, hver voru þau málefni þar sem helst bar á milli þessara sveitafélaga?
Það að ekki var hægt að reka hafnarsjóð í formi opinbers hlutafélags breytti miklu um okkar afstöðu gagnvart því að taka við rekstrinum. Í opinberu hlutfélagi er ábyrgð eigenda takmörkuð en ekki um ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum að ræða líkt og hugmyndin var á síðari stigum málsins. Sveitarstjórn Rangárþings eystra mat það svo að það væri einfaldlega ekki réttlætanleg gagnvart íbúum sveitarfélagsins að sveitarstjórn bæri fjárhagslega ábyrgð á rekstri hafnarinnar, en rétt er að taka fram að sveitarfélagið veltir aðeins u.þ.b. 900 milljónum kr. á ári.
 
Hvernig sér Rangárþing eystra framtíð hafnar við Bakka fyrir sér?
Þrátt fyrir þessa lendingu varðandi rekstrarformið er framtíð Landeyjahafnar björt. Meginmálið er það að Eyjamenn standa frammi fyrir byltingu varðandi samgöngur til Eyja. Við sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi eystra erum sannfærð um það að höfnin komi til með að verða mikil lyftistöng fyrir Suðurland allt. Frumvarp vegna hafnarinnar hefði alltaf þurft að koma fram óháð því hvernig rekstri hennar er háttað.
 
Nú hefur samgönguráðherra tilkynnt að lagt verði fram sérstakt frumvarp til laga um Landeyjahöfn og í frumvarpinu verði heimild til eignarnáms, höfnin verður í eigu ríkisins og lúti stjórn Siglingastofnunar. Er þessi niðurstaða ráðherra ykkur að skapi?
Við höfum lokið breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna hafnargerðarinnar, höfum tekið sæti í stýrihópnum um verkefnið og reynum að hlutast til um að  hlutirnir gangi smurt fyrir sig. Við gerum ráð fyrir fjölmennum fundi í Hvolnum á Hvolsvelli þann 26. mars n.k. þar sem umhverfismatsskýrsla vegna framkvæmdarinnar verður kynnt af fulltrúum Siglingastofnunar og Vegagerðar. Íbúar sveitarfélagsins eru núna aðallega að velta fyrir sér hvaða rask  komi til með að fylgja framkvæmdum en ljóst er að gríðarlegir grjótflutningar með tilheyrandi umferð þungavinnuvéla eru framundan.
 
Við þökkum Unni Brá kærlega fyrir hennar svör og birtum hér að neðan kveðju sem hún vildi koma á framfæri til eyjamanna og lesenda eyjar.net
Ég sendi Eyjamönnum hugheilar páskakveðjur fyrir hönd sveitarstjórnar Rangárþings eystra og vona að framtíðin færi Eyjamönnum bættar samgöngur með blóm í haga.
 
Kv.
Unnur Brá
 
 
 
 
 

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.