Kraftmikil Eyjapæja

15.Mars'08 | 06:32

Heiða

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við fatahönnuðinn Heiðu Eiríksdóttur en Heiða er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Heiða er barnabarn Erlu og Sigga Vídó og er eitt af folöldum Eiríks Hests. Við birtum viðtalið við Heiðu hér fyrir neðan:

Ég reyni að passa mig og vera meðvituð um að það sem kemur frá hjartanu er alltaf best. En ég hef alveg dottið í þá gryfju að hanna það sem markaðurinn vill en ekki út frá því sem hjartað mitt segir mér. Það er stöðug ögrun að fást við fatahönnun, af því maður má aldrei staðna en þarf líka að skapa sér sinn eigin stíl," segir Heiða Eiríksdóttir fatahönnuður en margir kannast við flíkurnar hennar sem heita Orginal og fást hjá Verksmiðjunni Skólavörðustíg, Kraum Aðalstræti og Bláa lóninu Grindavík. Heiðu hefur gengið vel og hún hefur verið dugleg að koma vörunum sínum á framfæri. Fötin hennar fást í verslunum víða um heim, í Belgíu, Finnlandi, Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi.

„Ég hef farið mikið á sýningar til útlanda til að kynna fötin mín og fór síðast núna í janúar með Útflutningsráði til Berlínar, en fram að því fór ég alltaf á eigin vegum. Fyrst var þetta mikið hark, þá gekk ég á milli búða í Danmörku með ungbarn á arminum. Það er mikið pot og hark sem fylgir því að koma nafninu sínu og vörunni á framfæri og ekki síður að fá að vera með á sýningum. En núna er ég loksins farin að geta valið úr til að halda standard," segir Heiða og hlær sínum glettna hlátri.

„Ég hef eytt miklu púðri í markaðssetningu en ég er svo heppinn að maðurinn minn er grafískur hönnuður svo það eru hæg heimatökin og hann hefur hjálpað mér með bæklingana, en þeir skipta miklu máli og ég sendi þá um allan heim. Oddvar Örn og Hörður Ellert hafa tekið fyrir mig myndirnar og ég er mjög ánægð með þær."


Dönsk vinkona sagði Heiðu vera „orginal"
Heiða útskrifaðist árið 2005 frá Bornholm Textil Akademy, en það er danskur skóli á eyjunni Bornholm.
„Við fórum út saman fjölskyldan árið 2001, ég og maðurinn minn ásamt tveimur börnum og svo bættum við þriðja barninu við á námsárunum í Danmörku," segir Heiða sem er Eyjapæja, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og kannski kemur þaðan krafturinn sem fylgir henni.

„Ég flutti frá Eyjum þegar ég var tíu ára en amma mín og frændfólk búa enn í Eyjum og mér finnst ég alltaf eiga svolítið í þessu svæði bernskunnar."

Heiða segist alltaf hafa verið svolítið erfið að því leyti að hún vill fara sínar eigin leiðir sem eru ekki endilega þær leiðir sem ætlast er til að hún fari.

„Ég fór til Danmerkur fyrir tíu árum til að læra blómaskreytingar og ætlaði að verða blómaskreytingakona, en svo endaði ég bara í fatahönnun og sé ekki eftir því. Þetta er svo skapandi starf og skemmtilegt. Fatalínan mín heitir Orginal af því að dönsk vinkona mín sagði að ég væri svo orginal og því fannst mér það vel við hæfi."


Frá Litháen til Portúgals
Kveikjan að því að Heiða byrjaði strax eftir nám að hella sér út í fatahönnunarbransann, var sú að foreldrar hennar bjuggu þá í Litháen, þar sem þau voru að vinna á vegum Hampiðjunnar. „Ég fór út og kannaði aðstæður, bæði með að kaupa efni og líka að finna verksmiðjur til að láta framleiða fötin, en í náminu mínu var lögð áhersla á að kenna allt framleiðslukerfið frá grunni. Ég er þakklát fyrir það í dag, því það skiptir máli. Fyrstu línurnar mínar voru framleiddar í Litháen en núna er ég búin að skipta um verksmiðju sem er í Portúgal."

Ekki bara fjör, líka púl
Heiða segir að hjá henni fari hönnunarvinnan að mestu leyti fram í tölvunni, en þó ekki allt.
„Ég teikna allar flíkurnar í flatri teikningu í tölvu, þó svo að ég skissi fyrst helling á pappír. Ég geri líka í tölvunni ýmislegt annað sem fylgir þessu, eins og til dæmis efnisleit og annað slíkt. En þetta er ekki bara fjör, þetta er líka púl sem þarf að hafa fyrir. Það þarf að halda vörunum inni og semja um verð, svo fátt eitt sé nefnt. Öll markaðssetningin er mikil vinna. Draumurinn er auðvitað að fá fólk í vinnu til að sjá um markaðsmálin, svo að ég geti einbeitt mér að því sem ég er best í. Ég er alltaf í vinnunni, þó ég sé ekki í vinnunni, af því ég er alltaf að hugsa upp einhverjar leiðir eða hugmyndir. En mér finnst það allt í lagi, af því að þetta er svo gaman."


Því fleiri hönnuðir, því betra
Heiða segist finna fyrir miklum meðbyr með íslenskri hönnun.
„Þetta er líka komið á allt annað plan en það var áður. Núna er verið að búa til alvöru hluti og margir hönnuðir eru lærðir. Því fleiri hönnuðir, því betra," segir Heiða, en henni finnst gaman að sjá fólk í fötunum sem hún hannar. Hún er með aðstöðu á vinnustofu með tveimur öðrum hönnuðum, þeim Söru Skúladóttur og Þorbjörgu Valdimarsdóttur.

„Við Þorbjörg erum að vinna að nýju verkefni þar sem við ætlum að spinna saman krafta okkar og hugmyndir og bræða saman stílinn okkar beggja. Það er mjög spennandi verkefni og gaman að sjá hvað kemur út úr því."

Til að fá meiriupplýsingar um hönnun Heiður má sjá vefsíðuna http://www.orginalclothing.com/

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.