Til móts við betri bæ, gestapenni

29.Febrúar'08 | 14:30

Elliði

Á lítilli eyju, þar sem íbúar hugsa stórt, skipta skipulags- og umhverfismál afar miklu.  Skipulagsmál hafa í fáatíma verið fyrirferðameiri en seinustu tvö ár.  Eftirspurn eftir lóðum hefur verið með eindæmum mikil og á það bæði við um atvinnushúsnæði, einbýlishús og fjölbýlishús.  Af þessum ástæðum hefur formaður skipulagsráðs, Gunnlaugur Grettisson tekið við áskorun minni og gerist hér með gestapenni og skrifar hér um skipulagsmál í Vestmannaeyjum

Til móts við betri bæ.
Gestapenni: Gunnlaugur Grettisson skrifar um skipulagsmál

_MG_4754 Landrými í Vestmannaeyjum er af augljósum ástæðum takmörkuð auðlind og ber okkur að umgangast hana sem slíka. Mikil breyting hefur orðið sl. ár í skipulagsmálum í Eyjum einkum þegar kemur að lóðaúthlutunum. Allt snýst þetta um framboð og eftirspurn. Við höfum reynt að vera á undan eftirspurninni með því að skipuleggja ný svæði sem og að benda áhugasömum aðilum á lóðir í grónum hverfum. En eftirspurnin er mikil og má segja að hún hafi aukist jafnt og þétt sl. mánuði. Það er stefna okkar að hafa stöðugt í boði góðar byggingalóðir fyrir íbúðarhús og fyrirtæki. Það hefur því mætt mikið á starfsmönnum okkar á Umhverfis- og framkvæmdasviði en þar eins og öðrum stöðum í bæjarkerfinu erum við vel mönnuð hæfu starfsfólki. Margar lóðaúthlutanir koma bæði til afgreiðslu hjá Umhverfis og skipulagsráði og Framkvæmda- og hafnarráði og hafa ráðin unnið mjög vel saman þegar svo ber við.

Íbúðarhúsnæði
Á vef Vestmannaeyjabæjar er að finna kort yfir lausar lóðir í sveitarfélaginu. Margar lóðir eru í boði og eru þar bæði um að ræða lóðir í eldri hverfum sem og nýjar götur og þá bæði fyrir einbýli sem og fjölbýli. Á síðustu fundum Umhverfis- og skipulagsráðs hefur fjölmörgum lóðum úthlutað.

Nýjar lóðir í boði.
Á sl. ári var sett í gang vinna við að skipuleggja nýjar lóðir fyrir íbúðarhús um leið og gjaldskrá lóðagjalda var endurskoðuð með það fyrir augum að gatnagerðargjald skuli standa undir gatnagerðinni sjálfri. Fyrsta gatan sem lagt var af stað með var lenging Litlagerðis til vesturs og fékk sú ákvörðun mjög góðar viðtökur. Skipulagðar voru fjórar einbýlishúsalóðir sem svo voru boðnar út. Eftirspurn var meiri en framboð og því var sýslumaður fenginn til þess að draga út heppna lóðahafa. Þeir hafa nú skilað inn teikningum sem hefur ráðið samþykkt. Um er að ræða glæsileg hús og verður gaman að sjá þau rísa á næstu misserum.  Í næsta nágrenni við Litlagerði eru þegar í boði fleiri góðar lóðir s.s. í Suðurgerði, Miðgerði og Austurgerð og einnig við Smáragötu.
Í Vesturbænum er nýbúið að úthluta öllum lóðunum í síðari nýja botnlanganum í Bessahrauni og margir aðrir spennandi kostir í næsta nágrenni s.s. við Áshamar, Búhamar, Dverghamar og víðar.

Lóðir í eldri hverfum.
Mikill áhugi hefur einnig verið á lóðum í grónum hverfum og hefur ráðið á síðustu mánuðum úthlutað ágætum fjölda þannig lóða til einstaklinga og verktaka. Þegar byggt er í eldri hverfi þarf að gæta sérstaklega samræmis og bera virðingu fyrir því umhverfi sem fyrir og gilda ákveðnar reglur þar um. Stór bygging rís nú á Baldurshaga og búið er að úthluta lóð fyrir fjölbýlishús við Hilmisgötu.
Eins og áður segir er að finna kort yfir lausar lóðir á vef Vestmannaeyjabæjar. Þétting byggðar er mikilvæg og verður götumyndin mun skemmtilegri þegar búið er að stoppa í götin sem svo má að orði koma.

Lóðir fyrir atvinnuhúsnæði.
Atvinnurekendur í Vestmannaeyjum hafa ekki látið sitt eftir liggja og þar má nefna mikla ásókn í lóðir á Eiðinu. Þar er nú að rísa glæsileg kæli- og frystigeymsla Vinnslustöðvarinnar og búið að úthluta stórri lóð fyrir vatnsverksmiðju á næstu lóð. Með þeim úthlutunum eru flestar lóðir á Eiðinu farnar en ef Stórskipahöfn norðan Eiðis verður að veruleika mun koma til meiri uppfylling þar sem þýðir aftur fleiri góðar lóðir sem og gáma og athafnasvæði. Sá möguleiki er sannarlega spennandi fyrir okkur og stórskipahöfn nauðsynleg fyrir Eyjar þegar til framtíðar er litið. Af öðrum málum má nefna, nýja landvinnslu VSV, umsókn Íslandspósts um lóð fyrir nýtt pósthús og lóðaumsókn Godthaab í Nöf. Þá hefur Ísfélagið möguleika á byggingu kæli- og frystigeymslu á lóð sinni og bjórverksmiðja er í burðarliðnum.

Næstu skref.
Umhverfis- og skipulagsráð hefur þegar sett af stað grunnvinnu við skipulagningu íbúðarhúsalóða við Hraunveg,  sunnan Hraunbúða og vestan við Hrauntún. Það er gert ráð fyrir einbýlishúsum, parhúsum og raðhúsum. Svæðið er gríðarlega spennandi í ljósi nálægðar við Hamarsskóla, Kirkjugerði og Hraunbúðir. Einnig hafa komið fyrirspurnir um einbýlishúsalóðir með möguleika á að hafa lítið hesthús á lóðinni eins og víða er verið að bjóða upp á. Það mál er í skoðum hjá ráðinu og standa vonir okkar til þess að við náum að skipuleggja og bjóða þess háttar svæði á næstu árum.
Annað spennandi svæði sem nefna má er t.d. malarvöllurinn við Löngulág. Með tilkomu nýs íþróttahúss við Hásteinsvöll þar sem m.a. verður vetraræfingaaðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir minnkar þörfin fyrir malarvöllinn. Svæðið er mjög mikilvægt og ekki síður dýrmætt. Þar má sjá fyrir sér sambland af íbúðarbyggð, verslun og þjónustu sem og svæði fyrir léttan iðnað. Það gildir um þetta svæði sem og önnur að gæta þarf að umhverfinu og bera virðingu fyrir því sem fyrir er í næsta nágrenni. Tryggja þarf þeim athöfnum og viðburðum sem í dag fara fram á svæðinu annan nýjan og s.s. íþróttaiðkun sem og árlega þrettándagleði ÍBV.

Að lokum.
Kjörnir fulltrúar eiga að leggja línunar og ákveða leikreglurnar í samræmi við gildandi lög og reglur. Ef farið er að þeim leikreglum er ekki síður mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu ekki mikið að þvælast fyrir einkaframtakinu heldur leyfa því að blómstra. Einungis þannig fáum við þann bæ sem við viljum búa í, þann bæjarbrag við eigum skilið og það mannlíf sem er best.

Gunnlaugur Grettisson
formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar.

http://ellidiv.blog.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.