Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta?

27.Febrúar'08 | 21:04

Elliði

Í dag sat ég fund þar sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi fjármálaráðherra færði útgerðamönnum í Vestmannaeyjum þær fréttir frá sjávarútvegsráðherra að loðnuveiðibann hefði verið numið úr gildi. 

lodnuveidar  Það liggur því fyrir að heimilað verður að veiða um 60.000 tonn í viðbót.  Auðvitað er verulegur skaði þegar skeður en í öllu falli verður áfallið minna en það hefði annars orðið.  Skipin eru nú ýmist komin á miðin eða á leið þangað.  Myndin hér til hliðar sýnir staðsetningu skipanna eins og hún er núna kl. 18.00.

Eftir stendur að sitt sýnist hverjum um þess ákvörðun.  Til eru þeir sem vilja friða loðnuna til að þorskurinn hafi meira að éta.  Þar sem fiskifræði er ekki mín sérgrein þá leitaði ég til fiskifræðings til að leggja mat á þessa skoðun.  Ég hafði því samband við Jón Kristjánsson fiskifræðing og samþykkti hann að gerast gestapenni hér hjá mér. 

Grein sú sem hér fer á eftir er hans svar við þessari umræðu.  Á það skal minnt að gestapennar sjálfir eru ábyrgir fyrir skrifum sínum og ber ekki endilega að setja jafnaðarmerki milli skoðana þeirra og minna.

Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta? - Svarið er nei.
Gestapenni: Jón Kristjánsson, fiskifræðingur

Pic2Jón Kristjánsson skrifar um fæðuþörf þorskstofnsins og loðnu: "Eina ráðið til að bæta vöxt og holdafar þorsksins er að veiða meira af honum. Með því að veiða meiri þorsk er unnt að veiða meira af loðnu."

MIKIÐ er rætt og ritað um að friða þurfi loðnu til þess að þorskurinn fái meira að éta, en hann er nú með horaðasta móti, þyngd eftir aldri í sögulegu lágmarki að sögn Hafró. Það þýðir að hann hefur gengið nærri fæðudýrum sínum og vantar meiri mat. Ekki er að undra þó nýliðun bregðist því væntanlega étur þorskurinn eigin afkvæmi án þess að spyrja um skyldleikann. En borgar sig að friða loðnu?
Reynslan úr fiskeldi sýnir að fóðurstuðull loðnu er um 7 í lokaðri kví. Til þess að þyngjast um eitt kg, þarf þorskur í kví að éta 7 kg af loðnu. Í náttúrunni, þar sem þorskurinn þarf að eyða orku í að eltast við bráðina, má reikna með hærri fóðurstuðli, segjum 10.

Reikna verður með að þorskurinn geti ekki nýtt sér alla þá loðnu sem við veiðum ekki. Gefum okkur 60% nýtingu því það eru einnig aðrar fisktegundir að eltast við loðnuna.
Af þyngdaraukningunni sem verður á þorski er leyfilegt að veiða 25% og af því sem veitt er fer 20% í slóg og innvols. Lítur þá dæmið svona út miðað við 1.000 kg af loðnu:
1.000 kg óveidd loðna x 0,6 (nýting) x 0,10 (fóðurstuðull) x 0,25 (aflaregla) x 0,8 (slægður fiskur) = 12 kg seljanlegur þorskur.

Hlutfallið loðna/ þorskur, miðað við þessar forsendur, er um 100, því þarf þorskur að vera 100 sinnum verðmætari en loðna til að aðgerðin beri sig. Víðs fjarri er að svo sé.
Bent hefur verið á að aðalfæða þorsksins sé loðna og hann sé algjörlega háður henni. En hvaðan kemur loðnan? Hver stjórnar henni?

Loðnan hrygnir við Suður- og Vesturströndina að vori og seiðin dreifast með straumi í kring um land. Ungloðan heldur sig á landgrunninu fyrstu tvö sumrin, gengur þá norður í höf og kemur aftur til hrygningar eftir rúmt ár. Það er sú loðna sem flotinn okkar veiðir en veiðar á ókynþroska ungloðnu heyra nú orðið sögunni til.

Loðnan er mikilvægust þorskinum sem fæða á meðan hún er að alast upp á grunnslóðinni. Stóra hrygningarloðnan, sú sem ber uppi loðnuaflann, nýtist þorskinum hins vegar aðeins þann stutta tíma sem hún gengur til hrygningar og þá aðeins þar sem hún fer um. Oft étur þorskurinn yfir sig og því hlýtur hún að nýtast fremur illa til vaxtar auk þess sem þetta gerist á kaldasta tíma ársins.
Sú staðreynd að þorskurinn nærist á uppvaxandi loðnu gerir það að verkum að það er í raun hann sem stjórnar því með áti sínu hve mikið af loðnu gengur norður í höf til að fita sig og koma síðan aftur til hrygningar við Suðurland. Þannig hefur þorskurinn sjálfur mikil áhrif á loðnustofninn.
Nær alltaf er því haldið fram að þorskur sé smár vegna þess að það vanti loðnu. - Er það ekki fremur svo að hlutfallslega stór þorskstofn sé horaður vegna þess að hann hafi gengið of nærri loðnunni, og minnkað þannig stofninn?

Svartfugl lifir líka á loðnu og sandsíli og horaður svartfugl er merki um vöntun þessara tegunda. - Á sama svæði er horaður þorskur! Hver er sökudólgurinn?
Þorskveiðar fyrir Norðurlandi hafa verið í lágmarki í tvo áratugi. Í kvótakerfi með takmörkuðum þorskafla geta menn ekki stundað veiðar á svæðum sem gefa nær eingöngu þorsk. Þorskkvótinn er notaður sem aðgangur að öðrum tegundum. Vegna lítils veiðiálags hefur þorskurinn óáreittur fengið að éta upp rækjuna, loðnuna og sandsílið e.t.v. líka.
Þegar svo ýsustofninn stækkaði bættist honum öflugur liðsauki, en ýsan étur loðnuna sem er ofan í sandinum, hrogn og seiði.

Hafa ber í huga að fæðuþörf þorskstofnsins er af stærðargráðunni 1.000 (þúsund) tonn á klukkutímann allan ársins hring. Eina ráðið til að bæta vöxt og holdafar þorsksins er að veiða meira af honum. Smávegis loðnugjöf býr bara til fleiri svanga þorska. Með því að veiða meiri þorsk er unnt að veiða meira af loðnu. Tvöfaldur bónus og svartfugl í kaupbæti.
Nú sem aldrei fyrr þarf að ræða vistfræði, samhengið í náttúrunni, og hætta að einblína á ofveiði. Eins þarf að gera tilraunir. Hvernig væri að gefa þorskveiðar frjálsar um tíma á stórum svæðum fyrir Norðurlandi og sjá hvað gerist?

Höfundur er fiskifræðingur og starfar sjálfstætt.

http://ellidiv.blog.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.