Það er óhætt að fullyrða að næstu dagar verða hlaðnir spennu í Vestmannaeyjum

25.Febrúar'08 | 06:13

höfn vestmannaeyjahöfn vestmannaeyjar vestmannaeyjabær

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra í síðustu viku að setja á bann við  loðnuveiðar mun hafa mikil áhrif á samfélagið í eyjum ef bannið stendur lengi yfir. Útgerðir hafa fjárfest undanfarið mikið bæði í skipum, kvóta og verksmiðjum og því er ákvörðun ráðherra reiðarslag fyrir þessa aðila.

Eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Pál Scheving, bæjarfulltrúa og verksmiðjustjóra FES og spurðu hann út í málið

Hvaða áhrif mun bannið á loðnuveiðum hafa á starfsemi FES ?
Ef ekki verða frekari loðnuveiðar er ljóst að áhrifin eru mikil á rekstur verksmiðjunar. Við tókum á móti tæpum 40.000 tonnum af loðnu á síðasta ári en aðeins hafa borist  liðlega 2.000 tonn af loðnu í Fesið á þessu ári. Breytingin er því umtalsverð ef ekki berst meiri loðnuafli til okkar. Og það er ekkert í hendi varðandi framhaldið þannig að við erum þegar farnir að bregðast við með því að bjóða í kolmunnafarma erlendra skipa. Við erum hæfari til að taka þátt í samkeppni um þann afla eftir gagngerar breytingar á verksmiðjunni. Nýting og afköst hafa aukist verulega. Það er það jákvæða í stöðunni.

Hversu mikið af núverandi kvóta Ísfélagsins er búið að veiða nú þegar ?
Rúm 9.000 tonn.   

Hvað sér Ísfélagið fram á mikinn tekjumissi í kjölfar veiðbannsins ?
Lauslega áætlað mun Ísfélagið verða af 30% af brúttótekjum félagsins ef miðað er við síðasta ár. Góð afkoma hefur verið af veiðum og vinnslu á loðnu undanfarin ár sem myndað hefur stóran hluta af framlegð félagsins. Áhrifin eru því meiri á framlegðina eða um 40%. En það er rétt að halda því til haga að ekki liggur fyrir að þessari loðnuvertíð sé lokið. Mín skoðun er sú að ef það er nokkur möguleiki á því gagnvart stofninum þá eigi að leyfa veiðar á hrognatímanum undir öflugu eftirliti. Það myndi breyta verulega áhrifum þessarar stöðu á efnahag fyrirtækja og einstaklinga sem byggja afkomu sína á uppsjávarfiski.

Mun Ísfélagið þurfa að grípa til uppsagna í kjölfar veiðibannsins ?
Það er ekki tímabært að segja til um það. Við lifum en í voninni um loðnuveiði. Meðan svo er hugsum við ekki um uppsagnir á fólki. Fólki sem hefur staðið með félaginu um árabil, verið reiðubúið að setja í þriðja gírinn og auka álagið þegar mikill afli berst á land. Uppsagnir hljóta að vera neyðarúrræði.

Þú sem bæjarfulltrúi, hvaða áhrif telur þú að þetta muni hafa á sveitarfélagið ?
Ef allt fer á versta veg er ljóst að framlegð fyrirtækja mun lækka. Framkvæmdastig lækka. Bæjarsjóður verður af skatttekjum. Það sem er hins vegar alvarlegast og ég hef mestar áhyggjur af, er fjárhagslegt áfall margra heimila og í kjölfarið trú hinna sömu á líf í sjávarplássi. Á mörgum heimilum er afkoman byggð á störfum beggja aðila við sjávarútveginn og skuldbindingar miðaðar við reynslu af árstekjum. Þar mun skóinn kreppa mest. Þar sem síst skyldi. Því miður.

Hvaða ráðstafanir telur þú að sveitarfélagið geti gert ?   
Bæjarstjórn hefur þegar sent frá sér ályktun varðandi stöðuna og er að beita ráðamenn þrýstingi. Ég lifi í þeirri von að hér verði loðnuvertíð, þó hún verði stutt og árétti það sem ég hef áður sagt að veiðar á hrognatíma geta gerbreytt stöðunni. Ef fram heldur sem horfir tel ég rétt að bæjarstjórn ásamt útgerðinni og verkalýðshreyfingunni eigi að beita sér hart fyrir því. Það er óhætt að fullyrða að næstu dagar verða hlaðnir spennu í Vestmannaeyjum. Spennu vegna þess að málinu er einfaldlega ekki lokið. Reynum að hafa skynsamleg áhrif á niðurstöðuna.

 

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is