Eyjamenn vona það besta en búa sig undir það versta

24.Febrúar'08 | 13:35

Elliði

Nú fyrir stundu lauk fundi hagsmunaaðila í sjávarútvegi hér í Vestmannaeyjum. Á fundinn sem útvegsbændafélag Vestmannaeyja boðaði til voru boðaðir fulltrúar fiskvinnslufólks, sjómanna, vélstjóra, skipstjóra og stýrimanna, útgerðarmanna og Vestmannaeyjabæjar. Upphaflega var von á sjávarútvegsráðherra en hann varð að boða fjarveru þar sem ófært var til Eyja.
Fundurinn fór vel fram og einhugur var alger. Sjómenn lýstu því að þeir teldu meiri loðnu nú við suðurströndina en undanfarin 3 ár. Þá lýstu margir yfir áhyggjum af þeirri gjá sem er milli mælinga Hafrannsóknastofnunar sem nánast fer með ákvörðunarvald í málinu og sjómanna. Fundurinn var sammála því að hluti vandans stafaði af því að starfsmenn Hafró eru almennt búsettir í Reykjavík, bæði í fjarlægð frá miðunum og þeirri þekkingu sem er að finna í sjávarbyggðum. Þannig liggja hafrannsóknarbátarnir nú bundnir við bryggju í Reykjavík á meðan sjómenn mæla loðnu um allan sjó. Eðlilega vaknar sú spurning hjá hagsmunaaðilum, sem tapa tugum milljóna á hverjum degi, hvort starfsmenn sætu heima hjá sér ef þeir væru búsettir í Vestmannaeyjum og rannsóknabátarnir væru gerðir út héðan.

Allir voru fundarmenn á því að enn væri góð von til að veiðar yrðu heimilaðar á ný innan fárra daga, jafnvel þótt varlega yrði farið til að byrja með. Eyjamenn vona því það besta en búa sig undir það versta eins og meðfylgjandi ályktun ber með sér:

Vestmannaeyjum 23. febrúar 2008
Í dag funduðu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar fiskvinnslufólks, sjómanna, vélstjóra, skipstjóra og stýrimanna, útgerðarmanna og Vestmannaeyjabæjar.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun einróma:

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum taka heilshugar undir ályktun Bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að: ríkið láti tafarlaust af íþyngjandi álögum á sjávarútveginn, látið verði af handaflsaðgerðum í tilflutningi aflaheimilda, opinber umræða verði ábyrgari, fræðasviðið sjávarútvegs verði styrkt, hafnaraðstaða verði stórbætt og hvalveiðar hafnar með auknum þunga. Meginn þorri fjölskylda í Vestmannaeyjum á viðurværi sitt undir rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og vill fundurinn að mótvægisaðgerðir taki mið af því.

Fundurinn tekur einnig einnróma undir ályktun VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna og skorar á stjórnvöld að koma til móts við þá sjómenn sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna nýlegra stjórnvaldsaðgerða. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hvetja því ríkisstjórn til að hækka sjómannafrádrátt og greiða sjómönnum laun til að stunda öryggisfræðslu og sækja öryggisnámskeið í heimabyggð. Slys til sjós eru allt of algeng og löngu tímabært að lyfta grettistaki í þeim efnum.

Fundurinn hvetur ríkisstjórn til að bæta fiskvinnslufólki tekjutap og huga sérstaklega að kjörum fiskvinnufólks sem verður fyrir mikilli skerðingu ef aflabrestur verður sá sem nú stefnir í. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum hvetja stjórnvöld til að fjárfesta í starfs- og endurmenntun starfsfólks í fiskvinnslu og gera þeim jafnframt kleift að stunda slíkt nám á dagvinnutíma þegar hráefni er ekki til staðar og það haldi dagvinnulaunum á meðan á námskeiðum stendur. Þannig verður best brugðist við breyttum aðstæðum og horft framtíðar á tímum mikilla tæknibreytinga og samdráttar í fiskafla.

Þá telur fundurinn það afar mikilvægt að tekin verði upp sú leið að gefa út jafnstöðukvóta (lágmarkskvóti sem ætíð fær að standa) til að skapa veiðum og vinnslu kjölfestu. Sjávarútvegur er ekki frábrugðin öðrum viðskiptum hvað varðar þörfina fyrir stöðugleika. Áhrif veiða í hlutföllum við áhrif náttúrunnar, svo sem át hvala og fugla, eru ekki slík að óttast þurfi slíka lágmarksveiði. Þetta myndi hinsvegar bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja og stórauka launaöryggi launþega á landsbyggðinni.

Að lokum krefst fundurinn þess að fulltrúar þeirra sem fara með ákvörðunarvaldið hvað veiðar varðar fari tafarlaust á miðin til að sinna rannsóknum. Vinnubrögð og rannsóknir þær sem eru forsendur ákvörðunartöku um veiðistopp á loðnu eru að mati fundarins afar gagnrýnisverð og mikið bil milli mats Hafrannsóknastofnunar og mats sjómanna sem hafa saman árhundruða reynslu af loðnuveiðum. Fjölskyldur og fyrirtæki í Vestmannaeyjum tapa tugum milljóna á hverjum degi sem veiðistopp er í gildi og það lágmarkskrafa að fulltrúar ákvörðunarvaldsins vandi til vinnu og setji vöktun í forgang.

Fundurinn telur að í engu megi hvika frá ofangreindum punktum ef sjávarútvegurinn á að þola þær þrengingar sem nú blasa við. Alþingi og ríkisstjórn þarf því tafarlaust að sýna festu í störfum sínum. Lýðskrum og vingulsháttur verður að víkja fyrir aðgerðum sem styrkja sjávarútveginn.
Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum

http://ellidiv.blog.is/ 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.