Ég auglýsi eftir því að fólk kvitti fyrir heimsóknir á síðuna mína

4.Febrúar'08 | 07:01

Þorbjörn Víglundsson Tobbi

Síðastliðin föstudag gekk brjálað veður yfir Færeyjar og miðin þar í kring. Áhöfnin á Guðmundi VE var í vari við eyjarnar ásamt fleiri bátum og samkvæmt lýsingum sjóara gekk mikið á. Eyjar.net sendu á Þorbjörn Víglundsson sjóara og aðalbloggara sjómanna nokkrar spurningar um lífið um borð í Guðmundi VE.

Hvað er langt síðan að þú byrjaðir að halda úti bloggi af sjónum?
Ég byrjaði að blogga utan sjó í mars en við vorum ekki komnir með nettengingu þá en gátum sent email í gegnum nmt línuna eða í gegnum standardinn. Ég sendi þá Agnesi minni nokkrar línur og hún setti þær inn á síðuna fyrir mig. Það var svo í júní í fyrra sem við fengum nettengingu um borð og þá byrjaði maður að blogga eins og alvöru bloggari....

Nú eruð þið nettengdir um borð, hverju breytir það fyrir ykkur?
Það breytir ýmsu,t.d. þá erum við í stöðugu símasambandi en skip eins og Guðmundur VE er mestan huta ársins utan NMT símasambands, svo auðvitað er það internetið. Nú getur maður í raun gert allt sem maður gerir á netinu heima hjá sér en við erum auðvitað ekki með neina ofur tengingu en við erum með 128 mb tengingu.

Síðan þín er mikið lesin og vitnaði mbl.is oft í síðuna á síðustu vertíð, eru þetta aðallega lesendur frá eyjum eða er þetta stærri hópur sem les síðuna þína?
Það er stærri hópur en eingöngu Vestmannaeyingar sem eru að kíkja á síðuna hjá mér, en það eru margir frá Eyjum sem koma við þar reglulega. Það er mikið af sjóurum víðsvegar af landinu sem hafa sent mér kveðju á síðunni en flestir sjóarar kíkja á síðurnar hjá hvorum öðrum reglulega til að sjá hvað er að frétta. En miðað við fjöldann sem kemur við hjá mér daglega eru ekki margir sem skilja eftir kveðju eða "komment". Og er ég hér með að auglýsa eftir því....

Síldarvertíðin gekk vel við Grundarfjörð hvernig byrjað þessi vertíð hjá ykkur núna?
Jú vertíðin í haust var alveg einstök og er þessi vertíð sem nú er ekki einu sinni skollin á að verða það líka. Vertíðin er eiginlega ekkert byrjuð fyrir utan part af túr sem Guðmundur VE var á loðnu í janúar, ég var í fríi þá og hef ekki séð loðnu frá því í fyrra. Við erum sem stendur að frysta kolmunna suður af Færeyjum ásamt um sex öðrum skipum frá Íslandi. Það er búið að gefa út svo lítinn kvóta á loðnu að flestir bíða eftir að loðnan gangi inn á grunnið og og hún verði orðin hæf til frystingar á Japan. Þeir sem eru að frysta loðnu núna eru að frysta kallinn á Rússland en kerlingin á Japan er margfalt verðmætari auk þess er gott að eiga nægan kvóta þegar kemur að kreistingu.
  Manni er samt farið að dauðlanga á loðnu því bæði er veðrið hér niður frá afleitt og endalausar brælur og maður á bara að vera að veiða loðnu á þessum tíma ekki kolmunna.

Á síðunni þinni er mikið magn ljósmynda af sjónum, hefurðu lengi verið að taka myndir?
Ég get ekki sagt að ég sé með einhverja myndadellu en ég keypti mér fyrstu stafrænu myndavélina árið 2003. Ég tók hana svo með mér á haustsíld á Gullberginu og var það svona kannski upphafið af því að ég fór að taka allar þessar myndir úti á sjó. Enda mikið af skemmtilegu myndefni um borð í Gullberginu. Ég er enn með sömu vélina og hefur hún reynst mér vel og tekur fínar myndir, enda þýðir ekkert að vera með einhverjar rándýrar vélar í þessu því það er alltaf hætta á að fá sjó yfir sig.

Þegar þetta er skrifað þá eruð þið í vari við Færeyjar, hvað gerið þið ykkur til dundurs þegar veðrið er hvað verst?
Jú við erum hér við Færeyjar í vari og er veðrið hér búið að vera alveg kolvitlaust. Menn finna sér svona ýmislegt til dundurs, sumir sofa meira en venjulega aðrir glápa á sjónvarp. Við erum með svona sjónvarpsflakkara í setustofunni og eru menn duglegir við að ná sér í afþreyingarefni þegar þeir eru í fríi og koma með um borð. Við erum líka með Sky pakkann svo við náum enska boltanum og við náum einnig Ríkissjónvarpinu. Svo er það auðvitað internetið sem hægt er að gleyma sér yfir. En það er samt ekki svo að hér sitji menn á rassgatinu allan sólarhringinn þó veiði tefjist um rúman sólarhring.
Það er að ýmsu að huga um borð í svona skipi og er dauður tími oftast notaður í viðhald og dúllirí.

http://www.123.is/tobbivilla

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.