Það hefur margur háski steðjað að þessari þjóð um aldirnar, en varla hefur í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum á sama andartaki

24.Janúar'08 | 07:22

eldgos

Við á eyjar.net höldum áfram að rifja upp atburðina í kringum eldgosið á Heimaey fyrir 35.árum. Í gær var það sem hr. Kristján Eldjárn, forseti Íslands flutti til Íslensku þjóðarinnar fyrir 35.árum. Í dag birtum við ávarp sem hr. Sigurbjörn Einarsson biskup flutti en sonur hans séra Karl Sigurbjörnsson var þá prestur í Vestmannaeyjum.

Ávarp biskups Íslands, Sigurbjörns Einarssonar:  

„Ó Guð vors lands, vér lofum þitt heilaga nafn. Þetta er sá strengur, sem ómar dýpst í þjóðarbarmi á hinum mestu stundum. Svo skyldi einnig vera nú, þegar vér höfum lifað einn hinn hrikalegasta atburð, sem orðið hefur í sögu landsins, án þess að tjón hafi orðið á lífi eða limum nokkurs manns. Það hefur margur háski steðjað að þessari þjóð um aldirnar, en varla hefur í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum á sama andartaki og síðastliðna nótt, þegar eldvarpið opnaðist í Helgafelli í Vestmannaeyjum. Og allir hafa bjargast. Þar hjálpaðist margt að, stöðvar gossins, veður og aðrar aðstæður, einstök viðbrögð og gifta þeirra manna, sem stýrðu þessu risavaxna björgunarstarfi eða lögðu því lið, og stilling og æðruleysi þess mannfjölda, sem koma þurfti undan hættunni.

Að sjálfsögðu veit enginn nú, hvað gerist frekar af völdum þeirra afla, sem losnað hafa úr læðingi á þessum stað. En hvernig sem gosinu vindur fram, getur ekkert skyggt á þá mildi Guðs og miskunn, sem vér höfum reynt og lifað nú. Og í því ljósi og með það í huga horfum vér öruggir fram, ráðnir í því, allir landsmenn, að standa einhuga og drengilega við hlið Vestmannaeyinga í þeirri miklu mannraun, sem þeir eiga að mæta. Eilífum Guði sé æra, var viðkvæði séra Jóns Steingrímssonar, þegar hann rifjaði upp ógnir Skaftárelda og öll þau merki um gæsku Guðs, sem hann þreifaði á í þeim skelfingum.

Ég veit að Vestmannaeyingar geta tekið undir með honum. Vér megum muna það, að manneskjan er smá, líf og lán er valt og veikt. En hitt er sýnu meiri og brýnni staðreynd, að vér eigum athvarf, sem bregst ekki. Guð er minn Guð, þó geisi nauð og gangi þannig yfir. Eilífur Guð styrki og blessi þá, sem heimtir voru úr helju. Eilífur Guð haldi hlífiskildi yfir oss öllum til lífs og sálar. Hann segir í orði sínu: Þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði, skal mín miskunnarsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast. Þetta verði oss öllum satt í Jesú nafni."

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.