Staðan á viðskiptalífinu og áhrifin hér í Eyjum

21.Janúar'08 | 08:00

Elliði

Eins og svo margir reyni ég að fylgjast með markaðsfréttum. Ég les Vísbendingu og Viðskiptablaðið, horfi á Markaðinn á stöð 2 og hlusta á raddir sérfræðinga – sjálfskipaðra sem annarra. Ætíð þegar ég fæ fréttir af þessu tagi hugsa ég með mér “og hverju skiptir þetta fyrir Vestmannaeyjar”. Auðvitað er ég ekki sérfræðingur á þessu sviði en það breytir ekki því að það er nokkuð gaman fyrir okkur leikmenn að fabúlera um stöðuna, hvað mun breytast og hver áhrifin munu verða hér í Eyjum.
Seinustu vikur hefur umræða um viðskiptalíf almennt verið frekar neikvæð enda gengi hlutabréfa fallið og krónan veikst. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% í janúar frá fyrri mánuði en uppfærðar spár markaðsaðila voru á bilinu 0 - 0,2% og er því niðurstaðan nokkuð yfir væntingum. Eins og ætíð á þessum tíma vógu vetrarútsölur mest til lækkunar vísitölunnar. Enn og aftur eru það húsnæðisliðurinn og matar- og drykkjarvara sem hafa mest áhrif til hækkunar. Verðbólga síðustu 12 mánaða og fyrir árið 2007 í heild reynist því vera 5,9% en án húsnæðis mælist hún 2,4% fyrir sama tímabil. Ef litið er fram hjá skattalækkunum í mars á síðasta ári nemur ársverðbólgan 7,8% sem er langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það er því alveg ljóst að blikur eru á lofti.

Þeir aðilar sem mest fjalla um stöðuna, greina hana og meta, eru almennt á því að 12 mánaða verðbólgan muni haldast há á fyrstu mánuðum ársins áður en hún fer að lækka. Af því má svo draga þá ályktun að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum háum þangað til að sterkar vísbendingar fara að berast um að hagkerfið sé að kólna. Í augnablikinu er atvinnuleysi enn í lágmarki en það mældist 0,8% fjórða mánuðinn í röð skv. tölum Vinnumálastofnunar og neyslugleði almennings náði nýjum hæðum í desember ef marka má tölur um kortaveltu í mánuðinum. Enn eru því engar forsendur fyrir lækkun stýrivaxta þrátt fyrir háværar raddir þar um.

Annar þáttur sem hamlar Seðlabankann í að hefja vaxtalækkanir er þróun krónunnar en síðustu daga hefur hún veikst talsvert þrátt fyrir blómlega jöklabréfaútgáfu. Seinast þegar ég athugaði (fyrir 5 mín.) stóð dollarinn í 65.03 krónum og gengisvísitalan stóð í 125,3.

Seðlabankinn stendur því frammi fyrir annarsvegar þrýsting hvað varðar lækkun stýrivaxta og hinsvegar mögulegum neikvæðum afleiðingum slíkrar ákvörðunar. Ef bankinn lækkar vexti nú er hætt við að krónan veikist enn frekar sem mun auka verðbólguþrýsting til muna og því er staðan allt annað en einföld þegar kemur að ákvarðanatöku bankans í þessum efnum.

Eins og alltaf þá spyr maður sig hvað bera þessar blikur í för með sér fyrir Vestmannaeyjar? Ég hef sem sagt á skoðun að á Íslandi séu í dag tvö hagkerfi. Annarsvegar eru það vaxtarsvæðin og hinsvegar þau svæði sem eru efnahagslega kaldari. Umfjöllunin er nánast undantekningalaust um hagkerfi vaxtarsvæðanna og fáir (mér vitanlega) deila þeirri skoðun með mér hagkerfin séu í raun sundurgreinanleg og að ósennilegt sé að hagsmunir þessara tveggja kerfa fari endilega saman. Án þess að ég ætli að fara í nákvæma greiningu eða útlistun þá má með rökum halda því fram að kólnun hagkerfisins sé almennt jákvæð fyrir landsbyggðina. Þenslan hefur jú verið á suðvesturhorninu (og á stóriðjusvæðunum). Hún (þenslan) hefur svo kallað á samkeppni um fólk sem byggðarlög utan þessara svæða, eins og Vestmannaeyjar, hafa ekki ráðið við. Fólkið hefur því eðlilega flutt sig á vaxtarsvæðin þar sem tækifæri þessa tíma hafa verið. Ef fram fer sem horfir mun kreppa að á hagvaxtarsvæðunum og hagvöxtur þar dragast saman. Mest mun hann dragast saman þar sem þenslan hefur verið mest og jafnvægið milli landsbyggðar (efnahagslega kaldari svæði) og suðvesturhornsins (hagvaxtarsvæðið) mun minnka. Samkeppnin um fólkið verður því jafnari og ef til vill munum við standa betur en áður hefur verið.

Ég spái því líka að minni trú fjárfesta almennt á fjármálastarfsemi, fasteignir og fleira muni gera það að verkum að fjármagn leiti á ný inn í frumgreinarnar og þá sérstaklega sjávarútveginn. Ávöxtunarkrafa mun ef til vill verða lægri en áhættan um leið minni. Sem sagt nokkuð ákjósanlegt fyrir sterk sjávarútvegsfyrirtæki eins og eru hér í Eyjum. Ef/þegar gengi íslensku krónunnar svo lækkar þá mun það enn frekar styðja útflutningsgreinarnar og þá sérstaklega sjávarútveginn.

Við þetta bætist að fólk leggur sífellt aukna kröfu á fjölskylduvænt umhverfi og ég er því eins og fyrr bjartsýnn á vænkandi hag okkar Eyjamanna hvað þetta og svo margt annað varðar.

 

http://ellidiv.blog.is/blog/ellidiv/ 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is