Fundur með samgönguráðherra

15.Janúar'08 | 21:33

Georg Arnarson

Samgönguráðherra upplýsti okkur um m.a. að samkvæmt áætlun á að setja 110 milljarða í samgöngumál á öllu landinu og þar af er heildarkostnaður áætlaður vegna Bakkafjöru 5,6 milljarðar. Varðandi þetta atriði, þá var það tekið fram af öðrum þingmönnum á fundinum og einnig á fundi sem ég sat með meirihlutanum í bæjarstjórn Vestmannaeyja s.l. fimmtudag, að almennt gerðu menn sér grein fyrir því að að öllum líkindum muni þetta kosta töluvert meira og telja menn sig hafa vilyrði fyrir frekari fjármagni í þetta og að málið verði einfaldlega klárað.

Fleiri atriði komu fram hjá ráðherra. Varðandi göng, þá yrðu þau aldrei ódýrari en 55 milljarðar og gætu kostað allt að 82 milljörðum. Varðandi Bakkafjöru, þá er stefnt að því að siglingar hefjist sumarið 2010, skipið verði 62 m. langt og 15 m. breitt, búið tveimur vélum og ganghraðinn verði lágmark 15 sjómílur. Ferjan taki 250-300 manns og 50 fólksbíla (gert er ráð fyrir 100 svokölluðum flugvélarsætum). Gert er ráð fyrir 1900 ferðum á ári, eða 5 ferðum á dag að jafnaði, eftir árstíðum. Verðskrá. Reiknað er með því að það muni kosta 1000 kr. fyrir bíl, 500 kr. fyrir fullorðna og 250 fyrir öryrkja. Ekki kom fram hvað komi til með að kosta með rútu frá Bakka í bæinn, en einungis er gert ráð fyrir 2-3 ferðum á dag. Útboð vegna smíði á ferjunni fari fram í apríl á þessu ári. Ágætis umræður áttu sér stað á fundinum eftir að þingmenn höfðu lokið sínum ræðum. Kom þar m.a. fram í svari ráðherra að hann treysti sérfræðingum siglingamálastofnunar og varðandi göng, að best væri að slá þau af í bili til þess að þurfa ekki að bíða lengur með að hefjast handa. Björgvin G. var minntur á kosningaloforð um að rannsóknir varðandi göng yrðu kláraðar og svaraði hann því til, að þó að þær yrðu ekki kláraðar núna, þá yrðu þær kláraðar seinna. Einnig var spurt um einhverjar aðgerðir strax og var svarið við því: Ekkert. Einnig var spurt um skipalyftu og stórskipahöfn, var því svarað til að varðandi Skipalyftuna, þá væri vandamálið (ef ég skildi það rétt) tengt ESB, en að öðru leiti væri það mál í farvegi. Páll Scheving spurði um frátafir og var með töflu siglingamálastofnunnar fyrir síðasta ár og kom þar fram að á 33 dögum hefðu orðið einhverjar frátafir og þar af 8 heilir dagar, en að sjálfsögðu miðast þetta bara við duflið og inni í þessum tölum er ekki ófærðir vegna venjulegrar brælu og ófærðar. Almennt heyrðist mér menn vera sammála um það sem ég hef lengi haldið fram, að frátafir verði mun fleiri með Bakkafjöru en Herjólfi, en menn gera sér vonir um það að með því að ferðirnar verði þetta margar og siglingaleiðin þetta stutt, þá nái menn að vinna þetta upp með fleiri ferðum. Ég er sammála þessu og vona það svo sannarlega að þetta gangi eftir. Einnig var spurt um lagfæringar og viðhald á núverandi Herjólfi og var eitthvað lítið um svör við því. Einnig kom fram að NMT-kerfið yrði lagt niður um næstu áramót, þannig að þá þurfa allir trillu og jeppakarlar að fjárfesta í nýjum símum. Samgönguráðherra, Kristján Möller kom vel fyrir á fundinum, svaraði þeim fyrirspurnum sem hann fékk og sló um sig með bröndurum þess á milli og þótt að margir væru honum ósammála og ég hafi sjálfur ýmsar efasemdir um þessa Bakkafjöru leið, þá þakka ég fyrir mig. p/s Ég var skammaður í gær fyrir að bera ekki upp spurningar og þær athugasemdir sem ég hef varðandi þetta Bakkafjöru dæmi við ráðherra. Svar mitt við því er einfalt: Mér finnst einfaldlega bara mjög þægilegt og gott að geta farið yfir málið í ró og næði fyrir framan tölvuna og orðað þar mínar skoðanir og hugsanir, en fyrst og fremst vona ég það, að þeir fjölmörgu sem gera sér vonir um að líf okkar hér í eyjum batni með þessu, verði að veruleika. http://georg.blog.is/blog/georg/

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%