Fyrir hverja er þrettándinn?

13.Janúar'08 | 22:40

Helgi Ólafsson, VKB

Ég rakst á þessa frétt áðan á Eyjafréttum.is þar sem framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags segir að líklega verði þrettándagleði félagsins ekki færð á laugardag á næsta ári, þótt það hafi heppnast vel þetta árið. Framkvæmdastjórinn segir félagið tapa peningum á því að standa fyrir þrettándagleðinni þrátt fyrir að bærinn hafi í ár hækkað framlag sitt vegna hennar um tæp 60% frá því sem áður var.

Undanfarin tvö ár hefur þrettándagleðin verið haldin á laugardegi. Í fyrra bar þrettándann upp á laugardag og í ár var gleðinni flýtt um einn dag. Lang flestum ber saman um það að þrettándagleðin hefi heppnast mjög vel bæði árin, og það hefur sýnt sig að brottfluttir Eyjamenn sem og allt það unga Eyjafólk sem sækir nám upp á fastalandið fjölmennir á gleðina þegar það er í aðstöðu til þess. En fæstir ofantalinna hafa tök á því, sökum ýmist vinnu eða skóla, að komast í miðri viku til Eyja.

En þrátt fyrir meiri aðsókn, þá kemur félagið engu betur peningalegaséð út úr hátíðarhöldunum, enda kostnaður síst minni þó fleiri mæti né gestirnir rukkaðir um aðgangseyri. Hinsvegar hefur þessi mikli fjöldi fólks afar jákvæð áhrif á rekstur margra þjónustufyrirtækja í bænum, sem skv. framkvæmdarstjóranum græða sum hver miljónir meðan ÍBV situr upp með tap. Margan sjálfboðaliðann, sem sumir hafa komið að þessari hátíð fleiri ár en ég hef lifað, svíður víst sáran undan því að einkaaðilar skuli hirða miljónir í hagnað þetta kvöld, meðan félagið kemur í tapi út úr þessu. Því vilja, skv. því sem framkvæmdastjórinn segir, margir þessara sjálfboðaliða ekki að þrettándagleðin á næsta ári verði færð á laugardag, eins og áður var áætlað.

Það er afstaða sem ég á erfitt með að skilja. Jú, það er án efa sárt fyrir þá sem vinna að þrettándagleðinni að sjá ÍBV tapa peningum á henni. En verður tapið einhverju minna við að þetta sé haldið á þriðjudegi? Samkvæmt því sem ég gat best lesið út úr greininni, þá stendur ekki til að hætta að halda þrettándagleði ÍBV, bara ekki að halda hana á laugardegi nema þegar þrettándann ber upp á laugardag.

Kostnaðurinn við hátíðarhöldin minnkar ekkert þótt Kertasníkir & Co. komi ofan af Hánni í miðri viku, hvað þá að það fari að streyma peningar í kassann ef Grýla hræðir líftóruna úr einhverju krakkagreyinu á fimmtudegi frekar en laugardegi.

Fyrir hverja er ÍBV að halda þessa þrettándagleði? Er það fyrir börnin sem bíða í ofvæni á ári hverju eftir að fylgjast með óttablandinni virðingu með tröllum og öðrum furðuverum dansa í kringum brennuna? Er það fyrir foreldrana sem fá tækifæri til þess að endurlifa æskuminningar sínar af þessari einstöku hátíð þegar þeir þramma með sín börn á eftir jólasveinum og tröllum í átt að malarvellinum? Eða er það fyrir mennina sem í áraraðir hafa smalað þessum sveinkum, forynjum, álfum og púkum á malarvöllinn og glatt auga gestanna með flugeldasýningum?

Ekki veit ég svarið við því. En ef hátíðin er haldin annaðhvort með börnin eða foreldranir í huga hefur það sýnt sig undanfarin tvö ár að mjög mörg þeirra eiga ekki heimangengt nema um helgar.

Miðað við þá einstaklinga sem ég þekki af sjálfboðaliðunum sem koma að framkvæmd þrettándagleðinnar á ég afar erfitt með trúa því að þessi afstaða ÍBV stjórnist af öfund í garð þeirra sem græða pening á komu fólks til Eyjanna. Þess vegna fæ ég engann veginn skilið afhverju þeir sem að þessu standa vilji ekki gera sem flestum foreldrum og börnum þeirra kleift að upplifa þessa einstöku og stórmerkilegu skemmtun, með því halda hana á laugardegi þegar því verður við komið.

http://helgi.vinirketils.com/

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).