Mikið að gerast í eyjum þessa dagana

10.Desember'07 | 07:33

Goggi gella

Fór á sjó á fimmtudagskvöldið með 16 bjóð, veðrið var alveg frábært, hæg norðlæg átt og fiskirí eftir því, eða 2,6 tonn á 16 bala. Fór svo aftur á sjó í nótt með 13 bjóð í leiðinda austan kalda og kviku en náði samt að klára róðurinn og afli var 2 tonn, mest ýsa. Í fyrri róðrinum lagði ég línu á það sem ég kalla skötubleyðuna mína, fékk liðlega 400 kíló af skötu sem verður selt á fiskmarkaði Vestmannaeyja á morgun.

 Margt hefur verið að gerast síðustu dagana í eyjum. Fyrir það fyrsta fór Herjólfur í viðgerð vegna leka með skrúu en er sem betur fer kominn aftur. Það var eins og eyjamenn vöknuðu upp við vondan draum við það að missa Herjólf og sýnir okkur hversu mikilvægur hann er fyrir okkur og það að samgöngur okkar séu stöðugar og öruggar. Þess vegna ítreka ég skoðun mína á því að við þurfum að fá stærri og hraðskreiðari Herjólf strax, hvort sem þessi bakkafjara gengur eða ekki.

Margt annað hefur verið í umræðunni í eyjum undanfarna daga, töluvert hefur verið rætt um möguleikann á því að hugsanlega verði byggingu knattspyrnuhúss frestað um eitt ár vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu íþróttahreyfingarinnar. Mér þykir þetta frekar dapurt ef að þessari frestun verður enda ljóst að okkur liggur á að fá þetta hús (þó það verði bara hálft). Það jákvæða í boltanum að mínu mati er nýtt kvennalið ÍBV í fótbolta sem byggt er fyrst og fremst á eyjastúlkum og verður gaman að fylgjast með þeim næsta sumar.

Miklar framkvæmdir eru núna í gangi á vegum Vinnslustöðvarinnar og ber þá hæðst bygging stórrar frystigeymslu við Höfnina. Þessi framkvæmd er töluvert umdeild en að mínu mati er þetta mikilvægt skref í þá átt að stækka það frystipláss sem við höfum hér í eyjum. Einnig sá ég að þeir Vinnslustöðvar menn huga á miklar framkvæmdir á fyrirtækinu. Það á að rífa norðurhúsið á Vinnslustöðinni og byggja það alveg upp á nýtt. Eina áhyggjuefnið í þessu sambandi er að það verði svo vél og tölvuvætt að þetta geti þýtt hugsanlega fækkun starfa hjá fyrirtækinu en ég vona það að þar sem eign fyrirtækisins er í miklum meirihluta í höndum eyjamanna að menn hugsi þá fyrir fólkinu líka.

Fleiri fréttir vöktu athygli mína síðustu viku. Nokkrir aðilar eru að fara af stað með hugmyndir um að flytja út vatn í neytendaumbúðum og gætu hugsanlega skapast nokkur störf í kringum það. Einnig er búið að skrifa undir samninga um að hefja bruggun á bjór í Vestmannaeyjum. Óska ég þessum aðilum öllum góðs gengis,enda veitir ekki af að fara að finna upp einhver störf í Vestmannaeyjum sem ekki tengjast fiskveiðum og vinnslu. Og mætti ég síðan biðja um einn Einsa-kalda fyrir mig. Og fyrir dömurnar sting ég uppá nafninu sem tengist mér örlítið, eða eina kippu af Blíðu, yrði örugglega vinsæll bjór. Meira seinna.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is