Samgöngur til Vestmannaeyja og Jökulfjarða eru sambærilegar, sem sagt engar.

7.Desember'07 | 10:56

Elliði

Samgöngur til Vestmannaeyja komu til umræðu á alþingi í dag.  Eins og fyrr er öllum ljóst að núverandi ástand er algerlega óþolandi.  Með sanni má segja að samgöngur við Vestmannaeyjar séu svipaðar og við Jökulfirði, sem sagt engar.  Munurinn er þó sá að í Vestmannaeyjum búa milli fjögur og fimmþúsund manns.  Hér er atvinnulíf öflugt, mannlíf óviðjafnanlegt og vaxtartækifæri víða.  Bara engar samgöngur.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur marg ítrekað lýst sig fylgjandi framkvæmdum í Bakkafjöru að gefnum ákveðnum forsendum.  Fáum dylst að að því gefnu að forsendur þessar gangi eftir þá verður þar um gerbyltingu að ræða.  Hinsvegar eru eðlilega uppi efasemdir um það hvort forsendurnar ganga eftir enda um stórvirki á sviði verkfræði að ræða.  Bæjarstjórn hefur einróma valið að treysta helstu sérfræðingum ríkisins í þessu máli en reglulega minnt á kröfur sínar hvað varðar frátafir, verðskrá, ferðatíðni og fleira. 

Þangað til siglingar komast á milli Vestmannaeyja og Land-Eyjahafnar (Bakkafjöru) þarf hinsvegar að bæta siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.  Enda að lágmarki tvö og hálft ár þar til siglingar á nýrri leið geta hafist. 

Eins og flestir muna þá var eitt af fyrstu verkum núverandi bæjarstjórnar að marka sér stefnu í samgöngumálum.  Stefna þessi var samþykkt með 7 atkvæðum á fundi bæjarstjórnar 27. júlí 2007.

Í inngangi að stefnumótun sagði m.a.:
"Fjögur ár eru einfaldlega of langur biðtími eftir bættum samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar og verður nú þegar að ráðast í að finna heppilega farþegaferju í stað núverandi Herjólfs sem uppfyllir nútímakröfur. Núverandi ástand samhliða mikilli aukningu farþega og flutnings með núverandi Herjólfi kallar á bættan skipakost nú þegar. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum leggja ríka áherslu á að nú þegar verði hugað að öðrum nýlegum skipakosti í stað núverandi Herjólfs sem orðinn er 14 ára gamall. Slík farþegaferja þarf að uppfylla allar öryggiskröfur sem gerðar eru til farþegaferja og siglinga í Norðurhöfum, hún þarf að stytta siglingartímann milli Eyja og Þorlákshafnar um að a.m.k. 30 mínútur í ferð, taka fleiri ökutæki og flutningavagna og hafa meira svefnrými en núverandi Herjólfur. "

Stefnan var annars á þessa leið:

1.  Herjólfur sigli þrjár ferðir á sólarhring þrisvar í viku yfir sumartímann.  Nærri lætur að næsta sumar nái þetta fram að ganga.  Enn vantar þó eitthvað af ferðum upp á.

2.  Flug milli lands og Eyja verði boðið út og ríkisstyrkur veittur til flugs.  Þetta hefur náð fram að ganga og er flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja öflugt.

3.  Stærra og nýrra skip verður leigt eða keypt í stað núverandi Herjólfs.  Þetta hefur enn ekki náð fram að ganga og er það verulega miður.  Sú barátta haldur áfram.

4.  Tryggt verði að fullnægjandi skip leysi Herjólf af maðan á slipptöku stendur.  Hér var náttúrulega átt við undirbúna slipptöku en ekki bráðatilvik eins og núna.  Þetta náði fram að ganga og hætt var við að láta flóabát leysa Herjólf af.

5.  Framkvæmdir vegna framtíðarsamgangna skulu hefjast á vormánuðum 2007 og þeim lokið eins fljótt og auðið er.  Þetta hefur náð fram að ganga að hluta til (reyndar ekki vormánuði 2007) umhverfismati er að ljúka, uppgræðsla hefur hafist og ætti hafnargerð að geta hafist innan skamms og vera lokið vor 2010. 

Það er hollt og gott að rifja upp hvað náð hefur fram að ganga og hvað ekki.  Ljóst er að skóinn kreppir þegar kemur að siglingum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.  Það er verkefnið sem nú blasir við þingmönnum og ríkisstjórn.  Vilji bæjarstjórnar til þess var kynntur fyrir einu og hálfu ári, frambjóðendur í suðurkjördæmi töldu ekkert í vegi fyrir því að nýtt skip yrði leigt þar til siglingar hefjast í Land-Eyjahöfn (Bakkfjöru) og ríkisstjórn hefur lýst yfir vilja til að bæta samgöngur til Eyja eins mikið og verða má.  Eftir hverju er þá að bíða?

Svona að lokum má geta þess að ég ræddi við Guðmund Petersen rekstrarstjóra Eimskipa fyrr í kvöld.  Hann sagði mér að viðgerð á Herjólfi gengi vel og að allar líkur væru fyrir því að skipið kæmi í áætlun á tilsettum tíma.  Í ljós kom að bilunin var minni en menn óttuðust og dugði að skipta um legur í fjórum skrúfublöðum en ekki þurfti að skipta upp ásleguna eins og menn héldu fyrst.  Unnið er allan sólarhringinn við viðgerðir enda tækifærið notað til að skoða botninn, taka upp vélarparta og fleira, um leið og unnið er að viðgerðum á þeim bilunum sem urðu til þess að taka þurfti skipið úr áætlun.  Þá eru radíomenn að vinna við að koma kallkerfi, útvarpi og sjónvörpum í það ástand sem sæmir farþegaferju.  Við ræddum einnig um mikilvægi þess að ganga tafarlaust til viðhalds á þeim hluta skipsins sem snýr beint að notendum.  Skipta þarf út stólum, bekkjum, sófum, kojudýnum og fleira.  Endurnýja þarf gluggatjöld, bæta aðstöðu fyrir börn, fyrir sjónvarpsáhorf og svo margt fleira.  Enn sem komið er þurfum við notast við þetta skip sem þjónustað hefur okkur vel síðustu 15 ár og á meðan svo er þarf að sinna viðhaldi og sjá til þess að gæðastuðlar taki mið af því að hér er um farþegaferju að ræða sem þjónustar eitt af stærstu byggðarlögum á íslandi.

 

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.