Sjálfsmynd

3.Desember'07 | 14:36
Ég tók mig til áðan og las í gegnum nokkrar “blogg” færslur mínar. Það kom mér satt að segja dálítið á óvart hversu lítið ég hef skrifað um sálfræðina sem ég varði þó stórum hluta æfi minnar í að læra. Ég er reyndar þeirri ónáttúru gæddur að verða heltekinn af því sem ég er að fást við hverju sinni og seinustu ár hefur rekstur Vestmannaeyjabær átt hug minn allan.

Svo mun verða áfram en ég ætla þó að gera sálfræðinni hærra undir höfði hér á síðunni en verið hefur enda er sálfræði í mínum huga afar merk vísindagrein. Það er eitthvað heillandi við að læra og lesa um eitthvað sem allir eru sérfræðingar í (mannlegt hátterni og hugsun) og einsetja sér að öðlast sérfræðiþekkingu í því. Það er ekki úr vegi að skrifa fyrst um sjálfsmynd, en það hugtak (ásamt meðferðarformum vegna neikvæðrar sjálfsmyndar) hefur verið inntak í mörgum skrifum mínum og störfum áður en skipti um starfsvettvang. (myndin hér til hliðar er sjálfsmynd, þ.e.a.s. af mér, og var tekin þegar ég heimsótti heimili Sigmund Freud í London).

 

Hugtakið "sjálfsmynd" mætti sem best skilgreina sem "allar þær hugmyndir sem einstaklingur hefur um sjálfan sig, skoðun hans og mat á sjálfum sér". Sjálfsmynd felur því í sér allt það sem einstaklingurinn notar til að skilgreina sig og aðgreina frá öðrum, þar með talið líkamleg einkenni, félags- og sálfræðilega eiginleika, hæfileika og færni, afstöðu til lífsins og svo framvegis. Sjálfsmynd er því ekki bundin við ákveðin tíma heldur nær hún til reynslu einstaklings af sjálfum sér, væntinga hans til framtíðarinar og núverandi upplifun hans.

Ljóst er að maðurinn fæðist ekki með fastmótaða sjálfsmynd heldur er hún fyrst og fremst lærð.  Reynsla einstaklingins hefur áhrif á og mótar skoðanir hans um sjálfan sig. Viðbrögð annarra við honum, mat hans á eigin viðbrögðum, ríkjandi samfélags gildi og fleira leggja allt sitt af mörkum til uppbyggingar sjálfsmyndarinnar.  Við þetta bætist svo að allir eiga sér einhverskonar fyrirmyndar sjálf sem segir til um hvernig einstaklingurinn vill vera burt séð frá því hvernig einstaklingurinn er í raun og veru. 

Mikilvægur áhrifaþáttur í mótun sjálfsmyndar er samanburður við aðra.  Við metum útlit og sálfræðilega þætti annarra og okkar sjálfra og komumst þannig að því hver staða okkar og geta er.  Fjölmiðlar og ríkjandi menningargildi og ímyndir spila stórt hlutverk hvað þetta varðar.  Fyrirmyndirnar birtast okkur á síðum dagblaða, í tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og víðar sem fullkomnir einstaklingar og gefa sterkt tilefni til samaburðar.  Því miður er ljóminn í kringum slíkar fyrirmyndir öfgakenndur og samaburður við þær vart til þess fallinn að efla mynd einstaklings af sjálfum sér.

Eins og gefur að skilja er sjálfsmyndin í örastri þróun framan af ævinni og fram á fullorðinsár.  Við göngum í gegnum daglegt líf, tökumst á við áskoranir eða hliðrum okkur hjá þeim.  Við vinnum sigra og bíðum skipbrot, upplifum traust og vantraust, erum elskuð eða svikin og svo framvegis, og allt skráist í sjálfsmyndina.  Smátt og smátt byggist upp til tölulega heildstæð sjálfsmynd sem eftir sem áður er ætíð í endurskoðun. 

Vandinn við sjálfsmyndina er þó sá að í of mörgum tilfellum verður útkoman neikvæð og sjálfsmatið lágt. Í öllum tilfellum er þá um að ræða að fólk metur eigin frammistöðu og árangur á óraunhæfan hátt. Einstaklingar með lágt sjálfsmat eru líklegir til að gera lítið úr góðum árangri og mikið úr mistökum sínum. Þeir eru líklegir til að setja sér markmið sem eru óraunhæf og því ólíklegt að þau náist.  Til að mynda er hætt við því að einstaklingur með lágt sjálfsmat taki ekki mark á hrósi en mikli hinsvegar gagnrýni fyrir sér að samaskapi.  Þessum einstaklingum hættir til að upplifa mikið bil milli fyrirmyndarsjálfsins, þess hvernig þeir vildu að þeir væru og sjálfsins, hugmyndar þeirra um sjálfan sig og eru því óáægður með sjálfan sig.  Þeim líður illa. 

Umhverfið og hugsanir eru óþrjótandi uppspretta harðrar sjálfsgagnrýni og óþægilegra kennda.  Hin neikvæða sjálfsmynd verður allt umlykjandi og vefur neikvæð formerki á flest í umhverfi einstaklingsins.  Þannig festist hann í vítahring þar sem hið lága sjálfsmat verður til þess að lítið er gert úr góðum árangri en mistökin mikluð, sem aftur leiðir til enn lægra sjálfsmats.  Í sumum tilvikum hlýst af þessu alger örvilnun og þar með sjúkdómar á borð við þunglyndi og kvíða.

Sjálfur hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstoða fólk sem glímt hefur við þessa kvilla.  Sú reynsla hefur kennt mér að besta gjöf sem uppalendur geta gefið börnum sínum er heilbrigð og jákvæð sjálfsmynd.  Þá hef ég einnig orðið staðfastur í þeirri trú (í raun í þeirri vissu) að allir geta eflt sjálfsmynd sína og mest þeir sem hafa lökustu sjálfsmyndina.

Elliði bloggar á www.ellidiv.blog.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.