Tilgangur Vosbúðar er fyrst og fremst sá að bjóða upp á heilbrigðan valkost afþreyingar fyrir ungt fólk í Eyjum

28.Nóvember'07 | 07:14

Margrét Rós

Í gær opnaði félagsmiðstöð fyrir aldurinn 16 – 25 ára að Strandvegi 65 og er Margrét Rós Ingólfsdóttir forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar í Vosbúð. www.eyjar.net hafði samband við Margréti að þessu tilefni og spjallaði við hana um starfsemi félagsmiðstöðvarinnar og tilurð þess að hún var sett á stofn.

Nú var félagmiðstöð í Vosbúð opnuð í dag, hvaða tilgang og markmið hefur þessi félagsmiðstöð og fyrir hvaða aldur er hún?
Starfsemi Vosbúðar er miðuð við aldurshópinn 16-25 ára. Tilgangur Vosbúðar er fyrst og fremst sá að bjóða upp á heilbrigðan valkost afþreyingar fyrir ungt fólk í Eyjum og að vera leiðandi í jákvæðu starfi ungs fólks. Hlutverk Vosbúðar og starfsfólks þess felst ekki síður í því að aðstoða ungt fólk við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Jafnframt tel ég mikilvægt að reynt sé að skapa jákvætt, uppbyggilegt félagslegt umhverfi og að gæði starfsins, þ.e það sem gerist inni á staðnum, sé í hávegi haft.

Hvaða starfsemi mun fara fram þarna innan dyra?
Nú þegar er komið þráðlaust net, 50" skjár, ps3 tölva og billjardborð. Fótboltaspil, sjálfsalar, enski boltinn og eitthvað fleira er á leiðinni. Skipulögð, fjölbreytt dagskrá verður nánast á hverju kvöldi þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Leitast verður við að ná í sem fjölbreyttasta hópa inn í starfið. Nemendafélag Framhaldsskólans kemur til með að nýta aðstöðuna eitthvað og félagsstarf fatlaðra einnig en þess má geta að aðstaða fyrir fatlaða í húsinu er mjög góð.

Nú var farið af stað í þetta verkefni eftir þrýsting frá ungmennum í Eyjum, telurðu að unga fólkið eigi eftir að nýta sér þessa aðstöðu?
Það er rétt að mikill þrýstingur var frá unga fólkinu í Eyjum í lok síðasta árs og fyrr á þessu ári vegna aðstöðuleysis. Menningar -og tómstundaráð tók þá ákvörðun að verða við þessum þrýstingi og nú er búið að útbúa stórglæsilega aðstöðu fyrir ungmenni á besta stað í bænum. Húsráð var skipað 17 ungmennum og allar þær ákvarðanir sem teknar hafa verið hafa verið teknar í samráði við húsráðið. Staðurinn endurspeglar því hugmyndir ungmenna í Eyjum í dag og þykir mér því full ástæða til að ætla að ungmenni fjölmenni daglega í Vosbúð.

Nú hafa staðið yfir að undanförnu breytingar á húsnæðinu, hafa krakkarnir komið sjálf að þeim breytingum með vinnu eða hugmyndum?
Það er óhætt að segja það að margir hafi lagt mikla og óeigingjarna vinnu á sig til að koma húsnæðinu í það horf sem það er í dag. Það var málað, þrifið, skrúfað saman húsgögn og svo framvegis. Fyrir það eiga þessi ungmenni sem um ræðir svo sannarlega skilið hrós.

Geta hópar og/eða félagasamtök nýtt sér aðstöðuna utan opnunartíma?
Það hefur verið gert víða annars staðar, námskeið, fyrirlestrar, fundir og fleira, með góðum árangri. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að svo verði einnig hér. Hvert tilvik ber þó að skoða fyrir sig.

Hvernig er með starfsmannahald og opnunartíma?
Silja Rós Guðjónsdóttir verður í fullu starfi, bæði gengur vaktir og sinnir öðrum málum tengdum Vosbúð. Auk hennar verður starfandi hlutastarfsfólk. Opið er alla virka daga frá 16-23.30 og um helgar frá 12-17. Opið er lengur á föstudögum ef eitthvað fjör er í húsinu.

 

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.