Handafls aðgerðir í sjávarútvegi kosta íbúa Suðurkjördæmis eitt þúsund og eitt hundrað milljónir

21.Nóvember'07 | 10:00

Alþingismenn í suðurkjördæmi eru gott og vinnusamt fólk.  Meðal þeirra verka sem þeirra bíða er að ráðast til atlögu við þá miklu mismunun sem við er að glíma innan sjávarútvegsins.  Suðurland fer illa út úr ofurskattlagningu á sjávarútveginn og við því þarf að bregðast.  Niðurskurður á þorskkvóta hefur gert þetta að enn þarfara verkefni en áður.

Handaflsaðgerðir í sjávarútvegi kosta íbúa Suðurkjördæmis eitt þúsund og eitt hundrað milljónir
Það er grundvallaratriði að þeir sem starfa í sjávarútvegi geti treyst á að allir sitji við sama borð.  Krafan er einfaldlega sú að starfseminni séu settar almennar reglur sem allir geta treyst að standi til langframa.  Því miður er staðan sú að íbúar í Suðurkjördæmi leggja í dag rúmlega 1,1 milljarð (rúmlega eitt þúsund og eitt hundrað milljónir) til vegna svokallaðra potta og línumismununar.

Eyjamenn eru ósáttir við veiðileyfagjaldið
Bæjarstjórn Vestmannaeyja er ekki hvað síst ósátt við veiðileyfagjaldið og telur það mismuna byggðum landsins. Margítrekað hefur verið rætt við "stóru krakkana" í pólitíkinni þ.e.a.s. þingmenn og ráðherra um hæpnar forsendur þessa landsbyggðaskatts. Því miður fer umræða um veiðileyfagjaldið oftast út í umræðu um hugmyndafræði þar sem menn detta í einhvern Morfís gír og kappkosta að ræða þjóðarauðlind, sameign þjóðarinnar, byggðastefnu, byggðarröskun og fleira. Alla jafnan er um leið settur upp spekingssvipur þeirra sem upplýstir eru en að umræðum loknum er vandinn enn til staðar. Lítið hefur því miður borið á skilningi á þeim vanda sem það veldur byggðalagi að stóla á atvinuveg sem er skattlagður umfram aðra atvinnuvegi.

Mikil staðreyndahagfræði en lítið af stefnuhagfræði
Ég er lítt lesin í hagfræði, það viðurkenni ég fúslega.  Ein og ein grein og bók um hagfræði kemst þó í gegnum þá síu sem takmarkaður tími setur mér hvað lestur varðar.  Nú nýlega las ég um muninn á staðreyndahagfræði  og stefnuhagfræði.  Í grófum dráttum má lýsa þessu sem svo að staðreyndahagfræði lýsir því sem verið hefur og greinir hvers vegna staðan í dag er eins og hún er, var eða verður.  Stefnuhagfræðin fjallar hinsvegar um vænlegar leiðir til að bæta árangur í efnahagslífinu.  Óneitanlega saknar maður þess að stjórnmálamenn og embættismenn fjalli ekki meira um stefnuhagfræði sjávarútvegs og sjávarútvegsbyggða eins og hér í Vestmannaeyjum.

Eyjamenn greiða 110 milljónir ári í veiðileyfagjald
Það er einfaldlega skaðlegt fyrir landsbyggðina og þá ekki síst íbúa á Suðurlandi að umræðan skuli ætíð þurfa að falla í Morfísfarveginn.  Hvað sem allri hugmyndafærði líður þá er staðreyndin sú að við Eyjamenn eru að greiða um 110 milljónir á ári í veiðileyfagjald (og þá er eftir byggðarkvóti, línuívilnun, rangir slægingarstuðlar, bætur vegna skel og rækju og fl.).  Ef þessir peningar yrðu eftir hjá bæjarfélaginu (eðlilegast væri að sleppa þessari gjaldtöku en það væri þó ill skárra) myndi þetta duga fyrir nýjum stórum leikskóla annað hvert ár, á 5 árum væri hægt að byggja nýja skipalyftu, hægt væri að hafa allt íþrótta- og æskulýðsstarf gjaldfrjálst, og þannig mætti áfram telja.  Þetta er vandi sem þarf að ræða á praktískum nótum en ekki hugmyndafræðilegum.  Ef við værum að sinna álbræðslu, verðbréfamiðlun eða orkuvinnslu þá yrðu þessar 110 milljónir eftir hér í Eyjum, en þar sem við vinnum við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar þá erum við (og aðrir sjávarútvegsbæir) skattlögð umfram aðra íbúa þessa lands. Staðreyndin er sú að 35% íbúa landsins (landsbyggðin) greiðir 85% skattsins.

Undarleg hagfræði
Enn og aftur minni ég á hversu lítt ég er lesin í hagfræði.  Viljinn til að læra er hinsvegar til staðar og þætti mér vænt um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér gæði þeirrar hagfræði sem um þessar mundir er stunduð og felst í því að ofurskattleggja sjávarbyggðir um allt land en afhenta þeim svo lítinn hluta af þessum sköttum í formi mótvægisaðgerða, byggðastyrks eða einhvers annars vegna efnahagslegra erfiðleika í þessari sömu grein.

Létta á álögum á sjávarútveginn og þar með á landsbyggðina
Staðreyndin er sú að auðlindagjald er landsbyggðaskattur sem leggst þyngst á efnahagslega  köldustu svæði landsins.  Ríkið á að styðja við bakið á þessum samfélögum með því að létta álögum á atvinnugreinar þessara svæða, þótt ekki væri nema til jafns á við það sem annarstaðar er.

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.