SASS þing - Átök, sátt, deilur og hugsanlegir eftirmálar

3.Nóvember'07 | 18:20

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið á fimmtudag og föstudag.  Þar voru haldnir aðalfundir SASS, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.  Ársþingið var sótt af um 70 sveitarstjórnarmönnum og embættismönnum auk gesta.  Meðal gesta ársþingsins voru Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir af þingmönnum kjördæmisins, þeir Árni Johnsen og Árni Mathiesen.

Eyjamenn áttu 7 sæti á þessum aðalfundi.  Tveir af fulltrúum okkar forfölluðust og gátu ekki mætt en fundinn sátu ásamt mér þau Páll Marvin, Páll Scheving, Páley Borgþórsdóttir og Gunnlaugur Grettisson.

Átök
Þingið gekk vel fyrir sig en fyrir var vitað að nokkur áttök yrðu um formennsku enda hafði Gunnar Þorgeirsson ákveðið að láta af formennsku.  Þá lá einnig fyrir að ágreiningur yrði um skipan fulltrúa Árborgar í stjórn SASS en það sveitarfélag er hið eina sem á tvo fulltrúa í stjórn SASS.  Mikið mæddi á kjörnefnd þessa daga og er ég afar stoltur af framgöngu þeirra og úrvinnslu á erfiðum málum.

Sátt
Svo fór að lokum að einróma sátt náðist um kjör Sveins Pálssonar -þess mæta manns- sveitarstjóra í Vík í Mýrdal.  Í stjórn SASS sem brátt tekur einnig yfir hlutverk stjórnar Atvinnuþróunarfélagsins voru auk mín skipaðir: Sveinn Pálsson formaður, Sigurður Ingi Jónsson, Þorgils Torfi Jónsson, Gylfi Þorkelsson, Jón Hjartarson og Guðmundur Þór Guðjónsson.  Allt eru þetta hinir vænstu menn sem vafalaust verður ánægjulegt að vinna með, þótt auðvitað hefði verið ánægjulegt að sjá konur í stjórn. Án þess á nokkurn sé hallað hefði sjálfur til dæmis viljað sjá Ragnheiði Hergeirsdóttur bæjarstýru í Árborg taka sæti í nefndinni.

Deilur
Deilur standa þó enn um lögmæti þess að Árborg skuli skipa tvo fulltrúa úr röðum meirihlutans.  Á fundinum mótmælti fulltrúi minnihluta Árborgar þessu fyrirkomulagi og taldi að tilnefning ætti að fara fram samkvæmt hlutfallsreglu. Líklegt þykir mér að minnihlutinn í Árborg kæri þessa niðurstöðu til Félagsmálaráðuneytisins til að fá úr þessu skorið.

Hugsanlegir eftirmálar?
Ég fór að lesa mér lítið eitt til í þessu.  Til að varpa ljósi á þetta þarf að skoða samþykktir SASS en þar segir í grein 4.2:
Á aðalfundi skal kosin 7 manna stjórn samtakanna. Samkvæmt tilnefningu skulu stjórnarmenn kosnir þannig úr þeim hópi manna sem eru kjörgengir skv. gr. 3.2.: 2 úr Árborg, 2 úr öðrum sveitarfélögum Árnessýslu, 1 úr Rangárvallasýslu, 1 úr Vestur-Skaftafellssýslu og 1 úr Vestmannaeyjum. Jafnmargir skulu kosnir til vara af hverju svæði.


Því er ljóst að kjósa skal samkvæmt tilnefningu.  Ekkert er hinsvegar sagt um það hver skal tilnefna.  Fulltrúi Árborgar í kjörnefnd hélt því staðfastlega fram að kjósa skyldi í stjórn samkvæmt tilnefningu Árborgar (bæjastjórnar) en ekki samkvæmt tilnefningu kjörnefndar.  Talsverður ágreiningur varð vegna þessara mála og vakti það reiði hjá fulltúum meirihluta Árborgar að aðrir skyldu ætla að hafa áhrif á það hvernig skipan færi fram.   Því varð úr að farið var að kröfu Árborgar og kjörnefnd setti því upp stjórn með tveimur fulltrúum meirihlutans eins og fyrr segir .

Því var unnið út frá því að tilnefningin skuli koma frá bæjarstjórn og því þarf næst að líta til "Samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Árborgar og fundarsköp bæjarstjórnar". Þar segir í 31. grein:

"Kosningar sem fram fara í bæjarstjórn skulu vera hlutfallskosningar skv. d´Hondts reglu, sbr. 85. og 86. gr. laga um kosningar til sveitastjórna nr. 5/1998."

Það virðist því margt benda til þess að hér hefði d'Hondts reglan átt að gilda og minni hlutinn því fá annan fulltrúann.

Ýmislegt mælir þó gegn þessu svo sem sú staðreynd að seinasti meirihluti Árborgar (D og B listi) skipuðu ekki fulltrúa minnihluta í sömu aðstæðum (reyndar var því ekki mótmælt), einungis segir að d'Hondts reglan gildi um "kosningar sem fram fara í bæjarstjórn" og fleira.

Það má því vissulega deila um hvað sé rétt í þessu og fróðlegt verður að sjá hverju fram vindur í þessu máli.  Sjálfur er ég með króníska rökræðuþörf og hlakka því til þess að sjá hvort málið verður kært til Félagsmálaráðuneytisins og þá hvernig afgreiðslu þetta mál fær þar.

Að lokum
Þess má svo geta að nokkuð hefur verið rætt um framtíðarhlutverk SASS og þátttöku sveitarfélaga.  Umræðan um þátttöku Vestmannaeyja á þessum vettvangi hefur verið umdeild.  Sjálfstæðisflokkurinn tók á sýnum tíma ákvörðun um að segja sig úr samtökunum á þeim grundvelli að samrekstur henti Vestmannaeyjum illa.  Fyrrverandi meirihluti Samfylkingar og Framsóknarmanna notaði hinsvegar lagið þegar þeir náðu meirihluta á miðju seinasta kjörtímabili og gekk á ný inn á þeim forsendum að samráðsvettvangur væri okkur mikilvægur. Sitt sýnist hverjum en hingað til hefur verið nokkur sátt meðal kjörinna fulltrúa í Vestmannaeyjum um þátttöku.

Elliði Vignisson bloggar á http://ellidiv.blog.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.