Það er vel hægt að reka fyrirtæki frá Vestmannaeyjum og sækja á markað á Íslandi eða annars staðar ef því er að skipta.

29.Október'07 | 08:09

Ómar Smárason

www.eyjar.net heldur áfram að heyra í brottfluttum eyjamönnum bæði innanlands sem og erlendis með þeim tilgangi að fá að vita hvar þau eru stödd í lífinu og hvaða viðhorft þau hafa til Vestmannaeyja.

Að þessu sinni heyrðum við í Ómari Smárasyni en Ómar er búsettur í Hafnarfirði

Nafn?
Hreinn Ómar Smárason (1973)

Fjölskylduhagir?
Í sambúð með Skagafjarðarmærinni Hafrúnu Jónsdóttur.  Eignuðumst soninn Arnar Frank 19. janúar 2007.  Annað barn væntanlegt um miðjan apríl 2008.

Atvinna og menntun?
Iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands. 
Hef starfað hjá KSÍ síðan 1. júní 1998, við markaðs- og kynningarmál og stjórn leyfiskerfis KSÍ.

Búseta? 
Hafnarfjörður

Mottó?
Það er hægt að finna húmor í öllu, og ég meina öllu.

Ferðu oft til Eyja ?
Ég fer alltof sjaldan, sérstaklega eftir að foreldrar mínir fluttust upp á land.  Þó á ég mjög góðan vinahóp í Eyjum sem ég held góðum tengslum við.  Fer samt eina til tvær ferðir til Eyja á hverju ári í tengslum við starf mitt, og það eru líka alltaf ein til tvær ferðir á eigin vegum fyrir utan það.

Telurðu það hafa mótað þig sem einstakling að hafa alist upp í eyjum?
Alveg tvímælalaust.  Mikið frelsi og öryggi sem felst í því að hafa fengið að alast upp í Eyjum.  Áhyggjulaus æska að mestu leyti.  Maður var í raun umkringdur fólki sem maður þekkti og fólki sem þekkti foreldra manns.  Það var einhvern veginn alltaf einhver að gæta okkar krakkanna.

Tenging við eyjarnar í dag?
Góður vinahópur sem býr í Eyjum og mikil samskipti þar á milli.  Ég er stoltur Eyjamaður og held því ávallt hátt á lofti að Vestmannaeyjar séu nafli alheimsins, bæði í gamni og alvöru. 

Fylgistu með því sem er að gerast í eyjum ?
Já, ég geri það.  Foreldrar mínir eru áskrifendur að Fréttum, þannig að ég kemst í þær.  Að auki skoða ég reglulega vefmiðlana.  Síðan er ekki hægt annað en frétta ýmislegt í gegnum vinafólk sem býr í Vestmannaeyjum.

Hvernig finnst þér staða Vestmannaeyja í dag?
Ég held að staðan sé erfið að mörgu leyti, fólksfækkunin virðist vera mikil og atvinnutækifæri af skornum skammti.  Vestmannaeyjar eru svo sem ekkert einsdæmi í þessu, heldur er landsbyggðin öll í svipaðri stöðu.  Sama þróunin á sér í raun stað um alla Evrópu, yngra fólkið sækir menntun í borgirnar og snýr ekki aftur heim á landsbyggðina eftir að námi lýkur.  En það þýðir ekkert að vera með eitthvað volæði þó á móti blási.  Vestmannaeyjar eru yndislegar í alla staði og þar er frábært að vera.  Ég er allavega stoltur Eyjamaður og held því ávallt hátt á lofti að Vestmannaeyjar séu nafli alheimsins, bæði í gamni og alvöru.

Hvar finnst þér sóknarfærin liggja fyrir Vestmannaeyjar?
Það er vel hægt að reka fyrirtæki frá Vestmannaeyjum og sækja á markað á Íslandi eða annars staðar ef því er að skipta.  Þessi heimur er alveg pínulítill og markaðirnir eru miklu nær en fólk heldur.  Menn verða að takast á við verkefnin óhræddir og fá til þess stuðning frá bæjarfélaginu og bæjaryfirvöldum.  Ef þú hefur trú á verkefninu eru þér allir vegir færir.

Hvernig sérðu næstu 10 ár í þróun eyjanna?
Þetta er erfið spurning og ég er ekki viss um að ég geti svarað henni svo vel sé.  Eitt er allavega ljóst.  Menn verða að skapa sér sína eigin framtíð. 

Sérðu fyrir þér á næstu árum að flytja til eyja?
Ég sé það svo sem ekki alveg fyrir mér, enda er ég ekkert að fara að hætta í því starfi sem ég er í núna.  Ég myndi gjarnan vilja gefa börnunum mínum tækifæri á því að alast upp í Eyjum, en allt snýst þetta um atvinnutækifæri.

Gætirðu hugsað þér að stofna og reka fyrirtæki í Vestmanneyjum?
Ég gæti alveg hugsað mér það, en ég hef svo sem ekki enn fengið góða viðskiptahugmynd.  :-)    Það yrði alltaf eitthvað þjónustutengt, enda var nám mitt mikið til í markaðssetningu þjónustu og starf mitt hjá KSÍ snýst að öllu leyti um að þjónusta viðskiptavini, sem hentar mér mjög vel.  Það er hægt að þjónusta fólk á ýmsan hátt og þú getur gert það í gegnum síma og internet.  Markaðurinn þarf ekki að afmarkast við Vestmannaeyjar.  Ég hef t.d. alltaf haldið tryggð við viðskiptabankann minn í Eyjum (Útvegsbankann sem nú er Glitnir), enda algjör óþarfi að skipta á tímum tölvupósts, internets og gsm-síma.  Og svo fær maður alltaf persónulega og vingjarnlega þjónustu, og fljóta afgreiðslu.  Nú vantar bara viðskiptahugmyndina og hagstætt lán hjá Glitni til að starta dæminu .....  ;-)

Ef að Eyjamenn þyrftu að fjármagna göngin að hluta til, myndirðu kaupa hlutafé í göngunum ?
Ég verð að vera hreinskilinn og segja nei.  Mér finnst gott að ferðast með Herjólfi og ég mun halda því áfram.  Ef göngin koma þá koma þau, en persónulega hef ég bara enga trú á því að það muni gerast.

Eitthvað að lokum ?
Mig langar að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir ákvörðunina um að byggja knattspyrnuhús.  Ef rétt er haldið á spilunum getur þetta gert gæfumuninn í framtíð knattspyrnunnar í Vestmannaeyjum.  Nú verða menn að standa vel að skipulegu uppeldi ungra leikmanna og nýta þannig aðstöðuna til hins ýtrasta.  ÍBV má ekki dragast aftur úr öðrum félögum.  Næsta skref þarf að taka strax og tryggja áhorfendum á Hásteinsvelli viðunandi aðstöðu og skjól fyrir veðri og vindum með yfirbyggðri stúku.  Stuðningsmenn ÍBV eiga það einfaldlega skilið, fyrir skilyrðislausan stuðning við sitt lið áratugum saman.  Ég bið svo auðvitað kærlega að heilsa öllum sem ég þekki í Eyjum, og að sjálfsögðu - Áfram ÍBV!

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.