Dauðarósir sjávarbyggðanna

3.Október'07 | 07:47

Eygló Harðardóttir

Árið 1998 kom út bókin Dauðarósir eftir Arnald Indriðason. Plottið gekk út á það að reykvískur verktaki keypti skipulega upp kvóta hjá fyrirtækjum umhverfis landið til þess eins að kippa fótunum undan sjávarútvegsfyrirtækjum og svipta þannig íbúa sjávarplássanna lífsviðurværinu. Í kjölfarið flyttu þeir á mölina og hann hafði því tryggt sér kaupendur að þeim þúsundum íbúða sem hann hafði í byggingu.

Fyrst þegar ég las þessa bók þótti mér plottið langsótt og bókin ótrúverðug. Undanfarnar vikur hafa þó verið að renna á mig tvær grímur.

Mikil þensla hefur verið hér á landi undanfarið og hafa menn, bæði til vinstri og hægri, keppst við að kenna virkjanaframkvæmdum á Austurlandi um. Merkilegt nokk er þó mestu þensluna að finna á höfuðborgarsvæðinu, fjarri Kárahnjúkum. Þar keppast verktakar við að hrófla upp nýjum hverfum og nýlega heyrðist í útvarpsfréttum að í Reykjavík vantaði 20 þúsund manns til að fylla þau hverfi og fjármagna fylleríið.

Ríkisstjórnin hefur samt fundið leið til að draga úr þenslunni. Og hver er hún? Á að koma böndum
á óheyrilegar fjárfestingar í steinsteypu á SV-horninu? Á að flytja starfsemi á vegum ríkisins út á land? Á að veita fjármagni til uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra í sjávarbyggðum til að treysta búsetu og draga úr fólksflóttanum?

Nei, ríkisstjórnin hefur önnur áform. Hún hefur skorið niður aflaheimildir um þriðjung og þannig kippt fótunum undan því fólki sem enn þraukar í sjávarbyggðum landsins. Mótvægisaðgerðir hennar eru ekkert annað en blaut tuska í andlitið á þessu sama fólki. Og nú síðast fréttist af áætlunum um að múta fólki sem missir vinnuna til að pakka saman og flytja til Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin er þannig komin í hlutverk verktakans í Dauðarósum sem fórnar sjávarútveginum svo kynda megi áfram þenslubálið á höfuðborgarsvæðinu. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún, með fulltingi allra þingmanna stjórnarflokkanna, hafa lagt eld að sjávarbyggðunum og ætla að sitja og horfa á meðan þær brenna til grunna.

Þeir sem vilja forða sér geta sótt 200 þúsund kallinn sinn til ríkisins áður en þeir setjast í rúturnar á leið til Reykjavíkur.

Höfundur er varaþingmaður Framsóknarflokksins.


 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%