Rekstur sjálfstæðs fyrirtækis í Vestmannaeyjum er vissulega einn af framtíðarmöguleikunum

17.September'07 | 04:40

www.eyjar.net mun á næstu vikum og mánuðum heyra í brottfluttum eyjamönnum bæði innanlands sem og erlendis með þeim tilgangi að fá að vita hvar þau eru stödd í lífinu og hvaða viðhorft þau hafa til Vestmannaeyja.

Að þessu sinni heyrðum við í Sighvati Jónssyni og Dóru Hönnu Sigmarsdóttir en þau búa sem stendur í Árósum í Danmörku.

Nöfn:
Dóra Hanna Sigmarsdóttir (1974) og Sighvatur Jónsson (1975).


Fjölskylduhagir ?
Við héldum uppá 10 ára brúðkaupsafmæli okkar í vor, en við giftum okkur 3. maí 1997. Við eigum synina Gabríel, 9 ára, og Elmar Elí, 2 ára.


Atvinna & Menntun ?
Þrátt fyrir árs aldursmun kláruðum við bæði stúdentspróf frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum árið 1994, þar sem Dóra Hanna fór í eitt ár sem skiptinemi til Bandaríkjanna árið 1991. Dóra Hanna lauk grunnskólakennaranámi frá KHÍ vorið 2003, og kenndi einn vetur á Selfossi, áður en við fluttum út til Danmerkur, þar sem Sighvatur hóf framhaldsnám haustið 2004. Hann lauk námi í margmiðlunarhönnun sumarið 2006, og er nú að læra tölvunarfræði í háskólanum í Árósum. Dóra Hanna vinnur nú hálfan daginn í matvöruverslun í Danmörku og hefur verið að leysa af í íslenskuskóla hér í Árósum. Samhliða náminu sinnir Sighvatur fréttaritarastörfum fyrir Stöð 2 ásamt ýmsum marg- og fjölmiðlunarverkefnum.


Búseta ?
Frá því að við fluttum frá Vestmannaeyjum árið 1996 höfum við búið í Kópavogi, Hafnarfirði og á Selfossi. Nú erum við að hefja okkar fjórða ár í Danmörku, svo við höfum búið víða - þó aldrei í Vestmannaeyjum.


Eigiði Mottó ?
Eitt af þeim er: „Að verða vinur tekur aðeins andartak, að vera vinur tekur alla ævi."


Fariði oft til Eyja ?
Já, eftir að við fluttum frá Eyjum höfum við farið um tvisvar sinnum á ári. Eftir að fluttum út til Danmerkur hefur ferðunum aðeins fækkað - en við förum þó að minnsta kosti einu sinni á ári til Vestmannaeyja.


Hvaða tengingu hafið þið við Eyjarnar í dag ?
Foreldrar okkar beggja búa í Vestmannaeyjum sem og fleiri ættingjar okkar og vinir. Svo er hlutafélagið okkar, Sigva ehf., með lögheimili í Eyjum, ásamt því sem Eyjafólk sinnir endurskoðun þess (Sigva er alþjóðlegt stuttnefni Sighvatar, hannað fyrir þær erlendu tungur sem ráða hvorki við Sighvatur né Hvati :) Við bindumst Eyjunum því ættar- vinar- og viðskiptaböndum.


Fylgist þið með því sem er að gerast í Eyjum ?
Já við fylgjumst auðvitað alltaf með umræðunni í Eyjum í gegnum allt okkar fólk, og lesum reglulega Eyjaefni á netinu. Foreldrar Dóru Hönnu eru dugleg að senda okkur Eyjablöðin af og til, og það er mjög heimilislegt á þessum tæknitímum að geta flett blöðunum af og til við eldhúsborðið.


Hvernig finnst ykkur staða Vestmannaeyja í dag ?
Okkur finnst margt jákvætt að gerast í Eyjum, og verður spennandi að sjá hvernig mál þróast með sameiningu grunnskólanna, bættar samgöngur og nýjungar í atvinnulífinu. Vonandi leiðir þetta allt til fólksfjölgunar, svo íbúafjöldinn fari að nálgast fimm þúsund aftur. Sighvatur er sérstakur áhugamaður um þau tækifæri sem fylgja tækninni, sem hann hefur meðal annars kynnst við fjarvinnu héðan frá Danmörku.


Hvernig sjáið þið næstu 10 ár í þróun eyjanna ?
Í okkar kristalkúlu sjáum við að árið 2017 munu að minnsta kosti 5.000 manns búa í Eyjum. Fiskvinnsla hefur þróast í fleiri áttir, svo hið víðara hugtak „matvælaiðnaður" á betur við. Bættar samgöngur hafa styrkt bæði ferðamannaiðnað og atvinnulíf í Eyjum. Sæstrengur sem kemur á land á Heimaey, og tengir Ísland við umheiminn, hefur skapað ný tækifæri í upplýsinga- og tölvugeiranum. Háskólamenntuðu fólki bjóðast fleiri störf í Eyjum en áður, og tískuhugtakið „nýsköpun" hefur leitt af sér verkefni og nýjar hugmyndir sem hafa orðið til þess að koma Vestmannaeyjum enn frekar á kortið. Hvernig þessi framtíðarmynd verður að veruleika verður ósagt látið hér, en fyrsta skrefið er jú að skrifa niður óskir sínar og markmið.


Sjáiði fyrir á næstu árum að flytja aftur til Eyja ?
Þau rúm 11 ár sem við höfum búið fjarri Eyjum höfum við reglulega velt þeim möguleika fyrir okkur að flytja aftur á heimaslóð. Helst hefur togað í okkur að leyfa strákunum okkar upplifa nánd við ömmur og afa, aðra ættingja okkar og vini. Við kunnum betur og betur að meta stuttar vegalengdir í Eyjum og stórkostlega náttúru. Fram til þessa höfum við búið annars staðar vegna atvinnu og náms, en eins og við höfum lýst hér að framan sjáum við fyrir okkur ýmis tækifæri sem ýta undir hugsanlega búsetu í Vestmannaeyjum.


Gætuð þið hugsað ykkur að reka fyrirtæki í Vestmannaeyjum ?
Dóra Hanna getur vel hugsað sér að vinna við kennslu í Eyjum, en í gegnum fjölmiðlaferil Sighvatar hefur hann meira verið staðbundinn við höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess. Hann hefur þó í gegnum árin sinnt ýmsum aukaverkefnum, og hefur það þróast uppí rekstur margmiðlunarfyrirtækisins Sigva Margmiðlun frá árinu 2005, í tengslum við frétta- og tölvuvinnu héðan frá Danmörku. Samhliða örum tækniframförum og sífellt meiri þekkingu hans og reynslu á sviði miðlunar og upplýsingatækni hafa kviknað ýmsar hugmyndir, svo rekstur sjálfstæðs fyrirtækis í Vestmannaeyjum er vissulega einn af framtíðarmöguleikunum. Auk þess hefur Dóra Hanna alltaf haft áhuga á ljósmyndun, sem fellur vel inní starfsramma alhliða miðlunarfyrirtækis.


Ef að Eyjamenn þyrftu að fjármagna göngin að hluta til, myndu þið kaupa hlutafé í göngunum ?

Hugmyndin er góð og vert að skoða hana við næstu fjárhagsáætlun fjölskyldunnar. Eins og með allar ákvarðanir í lífinu myndum við skoða hana út frá rökum og upplýsingum, ásamt góðum skammti af tilfinningu og innsæi. Í hreinskilni sagt erum við þó ekki „heltekin af göngum í blindni" í augnablikinu, þar sem okkur þykja óvissuþættir enn margir. 10 ára framtíðarsýnin hér að framan er þannig ekki skilyrt við jarðgöng, ef þau verða að veruleika yrði það bónus.


Eitthvað að lokum ?
Allar góðar og jákvæðar hugmyndir um framtíð Vestmannaeyja eru okkur að skapi, og þannig viljum við hrósa aðstandendum síðunnar eyjar.net fyrir sinn þátt í því að skapa jákvæða og málefnalega umræðu. Um leið og við þökkum okkar fólki í Eyjum fyrir frábærar samverustundir í sumar, sendum við kærar kveðjur til Eyjamanna um víða veröld - ef þið eigið leið hjá Árósum eruð þið velkomin í kaffi...og auðvitað gott spjall um Eyjar :-)


Heimasíða fjölskyldunnar: www.hvati.is

Heimasíða Sigva Margmiðlunar er í vinnslu: www.sigva.is

 

eyjar.net þakkar Sighvati og Döru Hönnu kærlega fyrir.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).