Bjóða á börnum í Vestmannaeyjum frístundakort og lækka dagvistargjöld.

5.September'07 | 12:07

Guðrún Erlingsdóttir Rúna

www.eyjar.net heldur áfram að heyra í valinkunnum Eyjamönnum varðandi hvaða möguleika þeir sjá í stöðunni með söluhagnaðinn af Hitaveitu Suðurnesja.

Að þessu sinni heyrðum við í Guðrúnu Erlingsdóttur fyrrverandi bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum.

Ef þú værir bæjarstjórnin hvað myndirðu leggja til að gert yrði við þessa 3.6 milljarða ? 

Í fyrsta lagi að flýta sér hægt og vanda vel til verka. Vestmannaeyjabær hefur nú þegar selt nánast allt sem hægt er að selja, það verður því ekki í aðra sjóði að leita þegar þessir peningar verða búnir.

Það var skynsamleg ákvörðun að fara hægt í sakirnar, borga upp óhagstæð lán og ávaxta féð á meðan skoðað er hvernig best er að nýta 3,6 milljarða.

Fyrir utan að borga upp óhagstæð lán, ætti að ávaxta hluta af peningunum á öruggum reikningum og eiga þannig eitthvað uppí lífeyriskuldbindingar bæjarins. Setja fjármagn í uppbyggingu atvinnulífsins með því að gera umhverfið þannig úr garði að eftirsóknarvert sé að reka fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Með inngöngu í atvinnuþróunarsjóð Suðurlands, Vaxtarsamning og mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar vegna skerðingar á þorskhvóta er nú svigrúm til þess að gera stórátak í atvinnumálum, styðja við bakið á frumkvöðlum og styrkja þá starfsemi til vaxtar sem fer fram hér í dag. Stórskipahöfn á Eiðinu með allri þeirri starfsemi sem hún býður uppá er forgangsatriði í mínum huga, þar á bærinn að koma myndarlega að málum án þess þó að taka við verkefnum ríkisins. Heilsuefling í margs konar mynd er annað atvinnuskapandi verkefni sem bærinn gæti komið að í samvinnu við Heilbrigðisstofnunina og önnur fyrirtæki.

Þegar búið er að borga upp skuldir og setja innspýtingu í atvinnulífið þarf að lappa uppá ásýnd bæjarins. Það á að standa myndarlega að uppbyggingu menningarhúss t.d. á Skanssvæðinu, það á að byggja hér fjölnota knattspyrnuhús, Vestmannaeyjar íþróttabær stendur engan veginn undir nafni eins og staðan er í dag hjá iðkendum íþrótta í Vestmannaeyjum. Sundlaugina og útisvæðið þarf að taka í gegn.

Bjóða á börnum í Vestmannaeyjum frístundakort og lækka dagvistargjöld. Ef við viljum ungu barnafjölskyldurnar aftur heim þá verðum við að vera samkeppnisfær við aðra staði.

Það er svo margt annað sem gera þarf, áratuga viðhaldsleysi fasteigna og stofnanna kostar sitt. Húsnæðismál fatlaðra er brýnn málaflokkur sem þarf að taka myndarlega á osfr. Þegar hér er komið sögu eru 3,6 milljarðar væntanlega búnir og gott betur, nema ávöxtun fjársins sé þess meiri.

Bæjarstjórnar býður erfitt verkefni að nýta þessa 3,6 milljarða sem allra best. Það verður ekki gert nema með miklum og góðum undirbúningi þar sem menn hafa það að leiðarljósi að upphæð sem þessi lítur væntanlega ekki dagsins ljós í reikningum bæjarsjóðs næstu áratugina.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%