Ekki öll nótt úti enn þrátt fyrir slæmt tap

27.Ágúst'07 | 14:15

Margrét Lára

Ísland tapaði á grátlegan máta fyrir Slóveníu í undankeppni EM í knattspyrnu í gær. Liðið fékk á sig sín fyrstu mörk í riðlinum og tapaði um leið sínum fyrstu stigum.

„Við sóttum stanslaust allan leikinn en skoruðum ekki mörkin sem til þurfti. Við vorum líka óheppin að því leyti að við fáum á okkur tvö skot og þau hafna bæði í markinu," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari. „Það var erfitt að brjóta liðið niður, þær eru sterkar og börðust vel. Við fundum ekki svæðin úti á köntunum til að koma með fyrirgjafirnar og klára færin. Við sköpuðum okkur þó mörg færi en það dugði ekki til."
Íslenska liðið fékk draumabyrjun í leiknum og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði strax á fjórðu mínútu eftir að hafa stungið sér inn á milli tveggja varnarmanna. Hún lét vaða að marki utan vítateigs og boltinn hafnaði í netinu.

Jöfnunarmark Slóvena kom aðeins tveimur mínútum síðar, beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Markið var glæsilegt og til að bæta gráu á svart var heimamönnum dæmt víti þegar Guðný Óðinsdóttir braut af sér. Þóra B. Helgadóttir kom engum vörnum við í vítinu.

Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem íslensku leikmennirnir fóru að bíta aftur frá sér og fengu nokkur mjög góð færi en skoruðu þó ekki. Þannig var það allan síðari hálfleikinn en besta færið fékk Margrét Lára á 55. mínútu er hún fékk stungusendingu inn fyrir vörn Slóvena. Hún var ein á auðum sjó en skot hennar hafnaði í slánni.

Eftir á að koma í ljós hverjar afleiðingar tapsins verða en ljóst er að Ísland verður að vinna annaðhvort Serbíu eða Frakkland á útivelli til að eiga minnstu möguleika á að komast áfram í úrslitakeppni EM í Finnlandi árið 2009.

Sigurður Ragnar segir að þrátt fyrir allt sé ekki öll nótt úti enn. „Við gerum okkur erfiðar fyrir en ef við vinnum þessa fjóra leiki sem eru eftir vinnum við riðilinn. Við þurfum því að treysta á okkur sjálfar."

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...