Lundaveiðitímabili lokið

16.Ágúst'07 | 19:22

Lundar

Nú er lundaveiðitímabilinu árið 2007 lokið og fyrir þetta tímabil ákváðu félagar í Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja að leyfa lundanum njóta vafans og veiða sér bara í soðið. Lítið hefur verið um sandsíli við Vestmannaeyjar og er það ákveðið áhyggjuefni varðandi næsta lundaveiðitímabil og komandi pysjutíma. Eyjar.net sendu spurningar á nokkra lundaveiðikarla til að fá smá fréttir hvernig sumar hefði verið hjá þeim.

Svör frá Halldóri Hallgrímssyni, Ystakletti

Hvernig hefur veiði gengið í Ystakletti í sumar?
Veiðin í sumar hefur gengið þokkalega þegar menn hafa verið úti í Kletti, enda mikið uppi af fugli í nær allt sumar, en veðurblíðan hefur sett strik í reikninginn.
Hefur seta í klettinum verið minni í eynni í sumar en undanfarin ár?
Veiðimenn hafa haldið að sér höndunum í sambandi við veiðina enda sjálfsagt að gera það. Þegar tímabilið fram að þjóðhátíð er tekið saman þá hefur að jafnaði verið 1 maður að veiða í Ystakletti á dag, eftir þjóðhátíð hefur lítið sem ekkert verið veitt.
Nú tóku aðilar að Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja sig saman að leyfa lundanum njóta vafans í sumar og veiða bara í soðið, hvernig telurðu þær aðgerðir hafa gengið?
Í Ystakletti hefur verið farið mjög varlega í veiðina enda ekki hálfdrættingar miðað við árið í fyrra og var það lélegt ár. Mér heyrist vera misjafnlega tekið á þessum málum í úteyjunum en greinilega alsstaðar farið mjög varlega í veiðina.
Hvernig sérðu fyrir þér næsta sumar varðandi lundaveiði?
Ég sé fyrir mér næsta sumar á svipaðan hátt og í ár þ.e.a.s. veiðimenn haldi að sér höndunum og veiði þegar helst er von á ungfugli.

Svör frá Gunnlaugi Erlendssyni, Brandinum

Hvernig hefur veiði gengið í Brandinum í sumar?
veiði hefur gengið vel á meðan menn hafa setið við. Nóg er af fugli en hann er bara ekki í réttu ástandi, lítið að bera og greinilega langt í æti.
Hefur seta í eyjunni verið minni í eynni í sumar en undanfarin ár?
Seta hefur verið mun minni en undanfarin ár og hafa menn bara verið að taka í soðið og fyrir Lundaballið. Við notum bara tíman í eitthvað annað á meðan einsog að ditta að kofanum eða bara sitja í sólbaði og hafa það gott.
Nú tóku aðilar að Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja sig saman að leyfa lundanum njóta vafans í sumar og veiða bara í soðið, hvernig telurðu þær aðgerðir hafa gengið?
hvað úteyjar varðar hefur þetta gengið mjög vel og menn verið samstíga í því að halda veiði í lámarki, og hafa úteyjarnar allar sem ein staðið sig vel í að veiða  aðeins í soðið, ætli úteyjarnar séu ekki að veiða svona 70 til 80 % minna en undanfarin ár.
Hvernig sérðu fyrir þér næsta sumar varðandi lundaveiði?
Þetta þarf mjög líklega að vera svona nokkur ár í viðbót á meðan stofninn nær sér áð nýju og pysjan fer að komast á legg, vonandi fer það að glæðast á næstu tveimur til þremur árum.
Við í úteyjunum bíðum þetta af okkur og látum Lundann njóta vafans, ekki viljum við að hann deyi út

Svör frá Pétri Steingrímssyni, Bjarnarey

Hvernig hefur veiði gengið í Bjarnarey í sumar?
Mjög, mjög lítil veiði enda veiddu menn bara í soðið fyrir sig og sína.
Hefur seta í eyjunni verið minni í eynni í sumar en undanfarin ár?
Það liggur í hlutarins eðli að þar sem menn voru bara að veiða sér í soðið þá var viðvera veiðimenna í Bjarnarey mjög lítil.
Nú tóku aðilar að Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja sig saman að leyfa lundanum njóta vafans í sumar og veiða bara í soðið, hvernig telurðu þær aðgerðir hafa gengið?
Ef við tökum bara Bjarnarey sem dæmi þá gekk þetta 100% upp.
Hvernig sérðu fyrir þér næsta sumar varðandi lundaveiði?
Eigum við ekki að vona að þetta ástand breytist til batnaðar á næsta ári. Það er greinilegt að það var æti fyrir fuglinn upp úr miðjum júlí sem var ekki í maí. Við verðum að bera þá von í brjósti að það verði nóg æti á næsta ári frá komu lundans og út allt tímabilið þannig að hann komi nú upp pysjunni.

eyjar.net þakkar þeim félögum fyrir svörin 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.