Samgöngumál (hversvegna vill ég frekar nýtt, gangmeira skip, frekar en Bakkafjöru?)

1.Ágúst'07 | 23:14

Herjólfur

Þegar umræðan um Bakkafjöru hófst, þá var ég sem sjómaður mjög efins um möguleikana á að gera þarna höfn. Ég hef nú stundað sjóinn við Vestmannaeyjar í 20 ár og oftsinnis verið á veiðum inni í Bakkafjöru, bæði fyrir utan og innan rif. Fyrsta tilfinning mín var sú, að þessi hugmynd væri nánast fáranleg, en ákvað samt að mæta á fundinn, þar sem rannsóknaraðilar skiluðu af sér lokaskýrslu um möguleikann á hafnargerð þarna. Á fundinn mætti ég algjörlega með opnum huga og ákveðinn í að láta sérfræðingana sannfæra mig um að þetta væri hægt, en þvert á móti þá sannfærðu mig þessir sérfræðingar um að þetta væri varla mögulegt (þó vissulega allt sé hægt, ef í það eru lagðir nógu miklir peningar).

Hér koma nokkur dæmi:

 Landgræðslustjóri sagði meðal annars: "Ef við getum byggt nógu öfluga varnargarða til að fyrirbyggja að sjórinn gangi jafn langt upp á land og hann gerir núna, og ef við getum gert varnargarða bæði vestan og austan við Bakkafjöru, til að minnka sandfok og ef við getum gert einhverskonar ræsi, til að losa okkur við allt það vatn sem safnast fyrir ofan fjöruna, þá ætti þetta að vera hægt að græða upp Bakkafjöru:" og svo bætti hann við:" Og að sjálfsögðu er allt hægt, bara ef við fáum nógu mikið af peningum í þetta."

Í lokaskýrslu fulltrúa Siglingamálastofnunar kemur fram, að gert sé ráð fyrir því, að í verstu veðrum, sé hugsanlegt að skipið geti tekið niður á rifinu fyrir utan Bakkafjöru. Einnig er gert ráð fyrir því, að við innsiglinguna sé einhverskonar hlífðarstoðir, sem skipið á að geta farið utaní í slæmum veðrum, til að komast inn í höfnina. Ég spurði sjálfur Gísla Viggósson, hvort GPS mælingar hefðu verið gerðar á sandinum. Hann kvað svo ekki vera. Ég spurði hann líka, hvort straummælingar hefðu verið gerðar fyrir utan fjöruna, fékk nei við því líka. Að lokum spurði ég hann, hvernig væri með siglingaleiðina þarna í austlægum áttum (ástæðan fyrir þessari spurningu er báturinn Sjöstjarnan VE, sem fórst þarna í austanbrælu og einn maður með). Svarið var einhvernveginn þannig, að það væri skipstjóranns að meta, hvort fært væri og þeim kæmi það ekki við.

Eitt atriði enn langar mig að nefna. Það er þessi vegur frá Bakkafjöru. Ég hef stundum þurft að fara þarna og tekið þá Bakkaflug og bílaleigubíl. Vegurinn er mjög mjór og hættulegur og yfir vetrarmánuðina er hálkan ótrúlega lúmsk (bara síðastliðið ár, hafa tveir Vestmannaeyingar látist á suðurlandsvegi). Bara þetta atriði er að mínu mati nóg til að staldra við.

Á síðasta ári, átti ég þess kost að fara til Færeyjar og sigla með Smyrli, sem siglir milli Þórshafnar og Suðureyjar, tæpar 40 mílur, svipað og milli Vestmannaeyjar og þorlákshafnar. Mér hafði verið sagt að þetta skip væri hreint ótrúlega stöðugt, en ákvað að kanna málið sjálfur (milli 60-70 myndir eru inni á Heimaklettur.is). Fyrri ferðin tók eina klukkustund og 45 mínútur og var ganghraði liðlega 21 míla. Í seinni feðinni lentum við í austan brælu, en fórum samt á sama tíma. Ég verð að viðurkenna það að mér brá töluvert við að sjá, að ekki var gert ráð fyrir neinum festingum á bílum og að engir farþegar virtust hafa áhuga á að fá sér koju. Mín reynsla er sú, að skipið hreyfðist ekki, þó að stíf austanátt væri á hlið og enginn vafi á því hjá mér, að þetta er nákvæmlega það sem okkur vantar.

Meira seinna.

p/s Vinkona mín Dollý (Sólveig Adólfsdóttir) var að skamma mig fyrir að halda því fram, að þeir einu hefðu áhuga á Bakkafjöruhöfn sem ættu sumarbústaði á suðurlandi. Ekki er ég alveg tilbúinn að samþykkja það, en mér hefur hinsvegar oft verið bent á, að margir hörðustu stuðningsmenn Bakkafjöruhafnar innan Íhaldsmanna í eyjum, eigi einmitt bústaði hér á suðurlandi, þó ekki ætli ég þeim að hafa það sem einhverja aðalástæðu.

http://georg.blog.is/blog/georg/

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).