Uppgjöf eða ólöglegt?

- um það var tekist í bæjarstjórn hvort niðurfelling fasteignagjalda á eldri borgara væri lögleg, minnihlutinn sakaði meirihlutann um uppgjöf í málinu

10.Nóvember'18 | 11:22
IMG_2452

Vestmannaeyjabær. Ljósmynd/TMS

Meirihlutinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti að fara að kröfu ríkisins og afnema niðurfellingu fasteignagjalda fyrir eldri borgara. Aðrar leiðir verði þó fundnar til að létta undir með hópnum. Minnihluti Sjálfstæðisflokksins sakar meirihlutann um uppgjöf í málinu.

Furða sig á að minnihlutinn vilji halda áfram að brjóta lög

Í bókun frá meirihlutanum segir að bæjarfulltrúar E- og H-lista ítreki bókanir í bæjarráði þess efnis að meirihlutinn hafi fullan hug á að létta undir með eldri borgurum þannig að þeir geti búið sem lengst í eigin húsnæði. Reglur um afslátt og niðurfellingu á fasteignaskatti verða þó að vera í samræmi við lög þar að lútandi.

Í áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er það talið verulega ámælisvert að bæjarvöld hefðu tekið ákvörðun um almenna niðurfellingu á fasteignaskatti fyrir 70 ára og eldri, þrátt fyrir vitneskju um að slíkt rúmaðist ekki innan lagaheimilda og kom það til skoðunar hjá ráðuneytinu að fella þær úr gildi með afturvirkum hætti þannig að Vestmannaeyjabær hefði þurft að beita endurálagningu á þá eldri borgara sem hefðu notið þessara niðurfellingar í góðri trú um margra ára skeið en til þess kemur þó ekki. Að auki lýsa bæjarfulltrúar meirihlutans furðu sinni á því bæjarfulltrúar D- lista vilji halda áfram að brjóta lög þegar aðrar leiðir að sama marki eru færar.
 

Ekki upplýst um fyrirætlaða uppgjöf meirihlutans

Í bókun frá minnihlutanum segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum harmi þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð voru af hálfu meirihlutans þegar svarbréf var sent á sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytið vegna niðurfellingar fasteignagjalda bæjarstjórnar Vestmannaeyja á íbúa 70 ára og eldri óháð tekjum. Á engum tímapunkti var haft samráð við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins né þau upplýst um fyrirætlaða uppgjöf meirihlutans í hagsmunabaráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara gegn ósanngjörnum kröfum ríkisvaldsins.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lásu fyrst um málið í fjölmiðlum þrátt fyrir að þeirra sé getið í umræddu bréfi. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að með svarbréfinu sé verið að fyrirgera sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélagsins til ákvörðunar tekjustofna sinna líkt og 5. Liður 3. greinar um sveitarstjórnarlög kveða á um en þar segir að: ,,sveitarfélög hafi sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrám sem þeim er heimilt að setja.? en þar sem niðurfelling fasteignagjalda var viðhöfð var ætið visað til lagalegs grundvallar og þvi með öllu rangt að bæjarfulltruar Sjalfstæðisflokk vilji ekki fara að lögum likt og meirihluti gefur til kynna.

Ríkisvaldið og sveitarfélög eru tvö jafnrétthá stjórnsýslustig og það er með öllum máta óeðlilegt að ríkisvaldið krefjist þess að sveitarfélög skattpíni eldri borgara sína. Í 6 ár hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins með stuðningi Eyjalistans létt álögum af eldri borgurum þrátt fyrir kröftug andmæli ríkisvaldsins, nú hefur hins vegar verið tekin fullkomin stefnubreyting þar um sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vísa í lög um að tekjustofna sveitarfélaga að sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða og því erfitt að sjá hvernig fulltrúar meirihlutans ætla að fara að lögum.



Málið var samþykkt með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.